140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[22:02]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður fer fram á það við mig og aðra hv. þingmenn að við sinnum ekki störfum okkar, það er það sem hv. þingmaður er að gera. Ég vek athygli á því að málið fékk ekki þinglega meðferð. (Gripið fram í.) Það fór ekki til umsagnar (Gripið fram í.) og nú kemur hv. þingmaður og segir: Ókei, við erum með allt niður um okkur en við þurfum að græja þetta núna. Er það ekki bara réttur okkar að þið látið eins og ekkert sé og ræðið ekki einu sinni þetta mál? Það er það sem hv. þingmaður er að segja.

Ég er ekki það skynugur að skilja þessar spurningar og ég er hins vegar alveg sannfærður um að hv. þm. Helgi Hjörvar hlýtur að skilja þær og ég bið hv. þingmann, vegna þess að hann hlustaði á ræðu mína, að útskýra hvað er hér á ferðinni. Ég held að það skipti til dæmis miklu máli að hann útskýri og færi rök fyrir því hvort Skúli Magnússon dósent sé í einhverri eyðimerkurgöngu þegar hann talar um þjóðareign. Er það svo? Segir hv. þingmaður að fræðimaðurinn viti ekkert um hvað hann er að tala?

Virðulegi forseti. Ég vísaði í lög um framkvæmd við þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er eitt ár eftir af kjörtímabilinu. Núverandi meiri hluti getur farið í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslur eins og þeir vilja en það er alvarlegt mál ef hv. þingmaður fer fram á að við sinnum ekki störfum okkar, því að það er það sem hann er að gera.

En úr því að hv. þingmaður fór í andsvar við mig vil ég biðja hann um að útskýra hvað hér er á ferðinni fyrir okkur sem lesum til dæmis greinar fræðimanna sem segja að málið sé algert klúður og að það sé ekki tilbúið, þeir segja meðal annars að það sé mjög óljóst, ég nefni eitt dæmi, þjóðareignina. Er Skúli Magnússon í eyðimerkurgöngu, virðulegi forseti?