140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[22:07]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi þinglegu meðferðina. Hv. þm. Helgi Hjörvar er vanur maður í pólitík. Hann talar ekki af einlægni þegar hann segir að innan við tveggja tíma fundur, þegar var gengið frá þessum málum, sé eðlileg þingleg meðferð. Ég ætla hv. þm. Helga Hjörvar það ekki og ég met það sem svo að hér hafi verið um grín að ræða seint að kvöldi.

Eins máls kosningar skila sér ekki í því að fólk mæti á kjörstað. Er einhver búinn að gleyma Icesave? Var einhver vandi varðandi kjörsókn í Icesave-málinu? Augljóslega vita stjórnarliðar það ekki enn en ég ætla, með leyfi forseta, að lesa 1. gr. í lögum um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna sem samþykkt voru 25. júní 2010:

„Álykti Alþingi að fram skuli fara almenn og leynileg þjóðaratkvæðagreiðsla um tiltekið málefni eða lagafrumvarp fer um framkvæmdina samkvæmt lögum þessum. Niðurstaða slíkrar atkvæðagreiðslu er ráðgefandi.“

Þetta eru lög frá Alþingi sem samþykkt voru fyrir tveimur árum síðan. Hvað er málið?

Virðulegi forseti. (Gripið fram í: Þessi gulldrengur.) Hv. þm. Helgi Hjörvar er vel lesinn, vel að sér með mikla reynslu, en hann gat ekki svarað því hvað þessar spurningar þýða. Ég treysti þessum hv. þingmanni betur en flestum hv. stjórnarliðum til að lesa sér til áður um efnið en hann fer í umræðu um jafnmikilvægt mál og hér er á ferðinni.