140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[22:28]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Herra forseti. Í fyrri ræðu minni vék ég að fyrri spurningunum sem lagt er til að rati í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég hafði farið yfir fyrstu spurninguna sem snýr almennt að því hvort kjósendur vilji að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá, ég hafði einnig farið yfir það sem fjallað er um í öðrum töluliðum sem snýr að náttúruauðlindum og þjóðareign og svo var ég byrjaður að ræða um þjóðkirkjuna.

Mig langar aðeins til að staldra við þjóðkirkjuna í þessari síðari ræðu minni og benda á að í stjórnlagaráðstillögunum er fjallað óbeint um það atriði í 19. gr. en þar er fjallað um kirkjuskipan. Í greinargerð stjórnlagaráðs um þessa grein er að finna, vil ég leyfa mér að segja, nokkuð ítarlega umfjöllun um þau margvíslegu álitaefni sem risu vegna þessarar tillögugreinar. Þar er fyrst að nefna að tillagan felur í sér að það ákvæði stjórnarskrárinnar um að hin evangelíska lúterska kirkja skuli vera þjóðkirkja á Íslandi verði fellt brott. Tillaga stjórnlagaráðs felur það í sér.

Eins og lesa má í greinargerð stjórnlagaráðs vekur þetta upp spurningar um það hvort með þessari breytingu sé þá lagt til að gerð verði breyting á kirkjuskipan ríkisins í skilningi núgildandi stjórnarskrár. Það er greinilegt af greinargerðinni að um þetta hafa verið mjög ólík sjónarmið í stjórnlagaráði og sitt sýnst hverjum en þó hefur niðurstaðan orðið sú að fella út þetta ákvæði úr núgildandi stjórnarskrá með nýrri stjórnarskrárgrein og í 2. málsgrein greinargerðarinnar um 19. gr. segir, með leyfi forseta:

„Tilgangur greinarinnar er að auðvelda löggjafar- og framkvæmdarvaldi að taka í framtíðinni ákvörðun um kirkjuskipan á Íslandi, ákvörðun sem mun hafa í för með sér þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem þjóðin sjálf ákveður hvernig hún vill haga þessu máli í framtíðinni.“

Stjórnlagaráð hefur litið svo á að með því að áfram lifði ákvæði um að hin evangelíska lúterska kirkja væri þjóðkirkja þá værum við í þeirri stöðu í framtíðinni að við þyrftum að boða til kosninga ef við vildum gera breytingar á því. Við sætum sem sagt uppi með að gera þyrfti stjórnarskrárbreytingu. Það er alveg gilt sjónarmið hjá stjórnlagaráði að auðvelda breytingar en það vantar algerlega hin efnislegu rök að öðru leyti frá stjórnlagaráði um hvort tilefni sé til að gera þá breytingu. Maður spyr sig þegar mælt er með þessu skrefi hvort komið hafi fram krafa um þetta á þjóðfundinum, en svo er ekki. Enga vísbendingu er að finna um það á þjóðfundinum að þjóðfundarfulltrúar hafi gert ákall um að við felldum niður ákvæðið um þjóðkirkjuna.

Í þessu sambandi er fróðlegt að fletta upp á bls. 260 í skýrslu stjórnlaganefndar í 1. bindi þar sem fjallað er um fyrirkomulag þjóðkirkjunnar og reyndar um samband ríkis og kirkju frá bls. 258. Þar er til dæmis að finna ágætan kafla sem fjallar um samband ríkis og kirkju í nágrannalöndum okkar. Þessu er háttað með örlítið mismunandi hætti í Danmörku, Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Þýskalandi sem jafnframt er horft til í þessu sambandi. Engu að síður er fróðlegt að velta fyrir sér hvernig þessi ríki hafa haft þetta, hvort þau hafi séð ástæðu til þess á umliðnum árum eða áratugum að fella út úr stjórnarskrá sinni sambærileg ákvæði í þeim tilgangi einum fyrst og frest að gera auðveldara í framtíðinni að breyta kirkjuskipaninni. Í fljótu bragði sýnist mér að svo sé alls ekki.

Hér segir t.d. um það sem gilt hefur í Danmörku að þar sé sú regla að konungur eða drottning Danmerkur skuli tilheyra hinni evangelísku lútersku kirkju, það er stjórnarskrárákvæði um það. En það er ekki tilgreint í dönsku stjórnarskránni að það skuli vera þjóðkirkja eða ríkiskirkja. Vegna samhengis hlutanna er ekki tilgreint að það skuli vera þjóðkirkja eða ríkiskirkja sem konungurinn eða drottningin skuli tilheyra. Samkvæmt þessari túlkun dugar að það sé evangelísk lútersk kirkja og má skilja á samhenginu að svo sé, en í 4. gr. segir að þjóðkirkja Danmerkur sé evangelíska lúterska kirkjan og hún njóti stuðnings ríkisins þannig að það er einhver óbein tenging við þetta. Þetta finnst mér vera athyglisvert.

Í Noregi er um þetta fjallað í 2. gr. stjórnarskrárinnar. Þar segir: Allir íbúar ríkisins njóta trúfrelsis hinnar evangelísku lútersku kirkju. Þau trúarbrögð eru opinber trúarbrögð ríkisins. Þeir íbúar sem aðhyllast hana skulu ala börn sín upp í þeirri trú. Þetta er athyglisvert ákvæði: Þeir íbúar sem aðhyllast hana skulu ala börn sín upp í þeirri trú. Þetta eru Norðmenn með í stjórnarskrá sinni. Þeir hafa ekki séð ástæðu til að fella þetta út. Í 4. gr. segir í norsku stjórnarskránni: Konungurinn skal ávallt aðhyllast hina evangelísku lútersku trú, styðja hana og vernda. Það er ekki mjög langt síðan íslenski forsætisráðherrann greindi frá því að hún íhugaði að segja sig úr þjóðkirkjunni. Það var reyndar ekki gefin upp nein ástæða fyrir því en það var engu að síður athyglisvert. Ég veit ekki hvernig það mál endaði.

Í Svíþjóð var sænska kirkjan lengst af ríkiskirkja samkvæmt ákvæðum stjórnarskrárinnar en því var breytt. Árið 2000 var því breytt þannig að kirkjan er nú sérstök lögpersóna eins og önnur skráð trúfélög. Um þá kirkju gilda sérstök lög en ákvæði um hana hafa verið fjarlægð úr stjórnarskránni. Það er þó þannig í Svíþjóð, samkvæmt skýrslu stjórnlaganefndar, að tengsl ríkis og kirkju eru mjög sterk og kirkjan undanþegin ýmsum kvöðum. „Eins og staðan er í dag þá hefur löggjafinn síðasta orðið um málefni sænsku kirkjunnar þótt ósennilegt megi telja að hann fari gegn vilja stofnana hennar með opinskáum hætti“, segir í skýrslu stjórnlaganefndar.

Ég ætla ekki að fara yfir þennan kafla í heild sinni með því að rekja bæði dæmin fyrir Finnland og Þýskaland en ég verð hins vegar að lýsa þeirri skoðun minni að mér finnst það vera nokkuð stórt skref að taka í þeim tilgangi einum að auðvelda breytingar á þessu efni í framtíðinni að fella út ákvæði um þjóðkirkjuna, þjóðkirkju okkar Íslendinga. Sérstaklega finnst mér það eiga við þegar fyrir liggur að ekki hefur komið fram neitt sérstakt ákall um slíkt, hvorki á þjóðfundinum né kannast ég við að sérstakt ákall sé um það á þingi eða komið hafi fram tillaga um það.

Loks er við þetta það að athuga að það vekur upp spurningar þegar menn fella ákvæðið út hvort ekki þurfi að fara fram sérstök þjóðaratkvæðagreiðsla um það, en á því er m.a. tekið í greinargerð með 19. gr. Þar segir í stuttu máli að þegar upp hafi komið sú spurning í stjórnlagaráði hvort fara þyrfti fram sérstök atkvæðagreiðsla vegna þessarar breytingar (Forseti hringir.) að þeir sérfræðingar sem stjórnlagaráðið leitaði til hefðu hver haft sína skoðunina eða ekki hefði verið nein einhlít skoðun um það. Þarna er uppi vafi um þetta atriði (Forseti hringir.) sem við á þingi höfum ekki tekið til sérstakar skoðunar og við hefjum þessa umræðu án þess að hafa fengið nokkurn botn í það mál.