140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[22:40]
Horfa

Magnús M. Norðdahl (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var efnisleg og góð ræða hjá hv. þm. Bjarna Benediktssyni. Ég skil ræðu hans þannig að hann muni sem sagt segja já við þessari spurningu þegar að þjóðaratkvæðagreiðslunni kemur. En það þingmál sem við ræðum fjallar um það hvort við eigum ekki að spyrja fleiri en hv. þm. Bjarna Benediktsson þannig að því sé haldið til haga.

Ég beini spurningum til þingmannsins og forsendur þeirra eru þessar:

1. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa ekki gert breytingartillögu við tillögu meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um að þjóðaratkvæði fari fram samhliða forsetakosningum 30. júní næstkomandi.

2. Það er öllum ljóst að frestur til þess að svo megi verða rennur út á miðnætti samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 91/2010.

3. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. þessara sömu laga skal að fenginni umsögn landskjörstjórnar kveða á um orðalag og framsetningu þeirra spurninga sem lagðar eru fyrir kjósendur.

4. Landskjörstjórn kom á tvo fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og gaf tvær umsagnir um þær spurningar sem ætlunin var að leggja fyrir kjósendur, m.a. var líka gefin umsögn um þá spurningu sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir vill að komi til afgreiðslu.

Þá koma spurningarnar:

1. Hafa þingmenn Sjálfstæðisflokksins fengið umsögn landskjörstjórnar á þeim fjórum spurningum sem eru á þingskjölum 1102, 1104, 1105 og 1107?

2. Fari svo að breytingartillögur hv. þingmanna Ólafar Nordal og Birgis Ármannssonar verði samþykktar hér í kvöld án samráðs við landskjörstjórn, hvaða afleiðingar hefur það á lögmæti þjóðaratkvæðagreiðslunnar og eftir atvikum hvaða afleiðingar hafa þær á lögmæti forsetakosninganna sem (Forseti hringir.) fram fara samhliða?