140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[22:44]
Horfa

Magnús M. Norðdahl (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þessi svör voru mjög skýr frá hv. þingmanni.

Í fyrsta lagi: Spurningarnar sem löglærðir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd vita að skal bera undir landskjörstjórn og þeir höfðu undir höndum þegar landskjörstjórn kom í heimsókn til nefndarinnar — slík umsögn liggur ekki fyrir. Með þeim hætti hefur Sjálfstæðisflokkurinn ákveðið að leika sér að því að kasta vafa á það hvort þær kosningar sem fram fara 30. júní, verði breytingartillögur þeirra samþykktar sem þeir gjarnan vilja, verði lögmætar eða ekki. Hv. þm. Birgir Ármannsson hafði miklar áhyggjur af því í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að hugsanlega gætu forsetakosningarnar orðið ólögmætar ef hinar fyrri væru ólögmætar.

Herra forseti. Þetta finnst mér vera slæleg, ófagleg og fljótræðisleg vinnubrögð af hálfu formanns Sjálfstæðisflokksins og þeirra þingmanna sem undir hans stjórn vinna. (Gripið fram í.)