140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[23:10]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að ég hafi hvergi í ræðu minni minnst á stjórnarskrárgjafann en það er náttúrlega búið að halda mjög margar ræður hérna í dag þannig að það er ekkert skrýtið að þetta renni allt saman í eitt.

Varðandi 79. gr. vil ég þakka hv. þingmanni fyrir að gefa sér tíma til að koma hér upp og reyna að útskýra fyrir mér hvað nefndin á við. Engu að síður er ég ekki alveg sannfærð þannig að við þurfum að taka frekari umræðu um það og gefst tími til þess vegna þess að ekki er búið að klára stjórnarskrárbreytingarnar og það er ágætt.

Þess vegna finnst mér svolítið stílbrot að hafa þetta inni í nefndarálitinu bara vegna þess að margoft hefur komið fram í máli nefndarmanna að þeir ætli sér ekki að ræða um einstakar breytingar á stjórnarskránni, en engu að síður kemur það hér inn. En eins og hv. þm. Magnús Norðdahl tók fram er þetta tæknilegt atriði en engu að síður er þetta veigamikið atriði vegna þess að í því felst jú breyting á því með hvaða hætti stjórnarskrárbreytingar taka gildi. Það gæti þá farið svo að ef þessi þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram að afloknum tvennum alþingiskosningum yrði þetta allt saman fellt og þá stæðum við eftir með núgildandi stjórnarskrá óbreytta, þannig að menn átti sig á því.