140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[23:12]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Við erum í síðari umræðu um tillögu til þingsályktunar um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga. Margt athyglisvert hefur verið sagt í þessari umræðu en ég vil hins vegar ítreka það sem ég sagði í fyrri ræðu minni í fyrri umræðu. Það er rétt að stjórnarskráin hefur aldrei sætt heildarendurskoðun og það er eins og það skipti fólk hér mestu máli. Að mínu mati skiptir það mun meira máli hvaða efnisgreinum hefur verið breytt frá því að hún tók gildi. Af þeim 80 greinum sem eru í íslensku stjórnarskránni hefur ríflega 40 greinum verið breytt og það ekki litlum greinum.

Ég benti á það að árið 1991 var farið í nokkuð umfangsmiklar breytingar á stjórnarskránni. Árið 1995 var farið í algjöra endurskoðun og settir inn nýir og merkilegir kaflar sem snerta mannréttindi Íslendinga. Árið 1999 var farið í að breyta kjördæmaskipuninni, sem var mikið mál, tók langan tíma, enda þurfti mikla þverpólitíska samstöðu í þeim breytingum, eins og líka var lagt upp með árið 1991 og 1995. Menn lögðu sig fram um að ná sátt, gáfu sér tíma, ráðfærðu sig við sérfræðinga og hlustuðu á fagaðila. Það er meira en gert hefur verið fram til þessa í þessu máli, því miður. Menn reyndu að ná þessum „konsensus“, sáttinni sem er svo mikilvæg þegar stjórnarskráin okkar er annars vegar.

Það hefur verið sagt í þessari umræðu að við sjálfstæðismenn viljum ekki breyta stjórnarskránni, að við séum hræddir við þjóðina. Þetta er flokkurinn sem hefur lagt fram að minnsta kosti þrjár tillögur á þessu kjörtímabili um þjóðaratkvæðagreiðslur í málum sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa hafnað að leggja fyrir þjóðina þó að um sé að ræða stór mál. Það kann vel að vera að menn hafi haft ákveðnar ástæður fyrir því en ég var þeim ósammála. Ég var flutningsmaður þeirrar tillögu að bera fyrsta skrefið í umsókninni um aðild að Evrópusambandinu undir þjóðina. Ég er sátt við að farið var í þær viðræður en ég taldi rétt að hafa þjóðina með í upphafsskrefinu sem og í lokaskrefinu. Því höfnuðu stjórnarflokkarnir og reyndar ákveðnir þingmenn þar til viðbótar.

Stjórnarflokkarnir höfnuðu líka tillögu okkar sjálfstæðismanna um þjóðaratkvæðagreiðslu sem tengdist Icesave-samningunum. Svo segja menn að sjálfstæðismenn þori ekki að fara með stóru málin fyrir þjóðina þegar sagan segir allt annað, þegar tillögur okkar liggja hér fyrir um allt annað. Að mínu mati er verið að reyna að slá ryki í augu fólks, kannski í þeirri veiku von að menn séu svona fljótir að gleyma þegar að þessu máli kemur.

Ég ætla ekki að fara í mikið karp út af þessu. Ég vil hins vegar segja vegna alvarleika þessa máls: Ég viðurkenni að ég er íhaldssöm, enda í þeim flokki, þegar kemur að því að breyta stjórnarskránni, en ég vil breyta ákveðnum ákvæðum. Það hefur lengi legið fyrir að drjúgur þorri Sjálfstæðisflokksins er reiðubúinn í þær breytingar og tillögur þess efnis hafa legið fyrir í gegnum tíðina. Ég hef margoft farið yfir þau atriði úr þessum ræðustól og tel óþarft að fara yfir það aftur.

Mér finnst hins vegar sárt, í ljósi þess að menn hafa verið reiðubúnir að breyta stjórnarskránni, að þrjú ár skuli hafa farið til spillis. Við höfum ekki enn sem komið er náð þessari pólitísku sátt — ég ætla þó enn að halda í þá von að á næsta þingvetri náum við meiri sátt um breytingar á stjórnarskránni en nú er uppi í þinginu.

Ég held að stórum áfanga hefði verið náð í upphafi þessa kjörtímabils ef við hefðum náð fram ákveðnum veigamiklum breytingum sem sátt hefði getað skapast um, breytingum á auðlindaákvæði í stjórnarskrá sem við sjálfstæðismenn erum reiðubúnir að samþykkja, breytingum í þá átt að einfaldara yrði að breyta stjórnarskránni, breytingum á 79. gr. stjórnarskrárinnar. Ég held líka að stórum áfanga hefði verið náð ef menn hefðu áttað sig á því að menn væru tilbúnir til að fara í breytingar á ákvæðum sem hafa verið mjög til umræðu allt frá 2004 varðandi forsetaembættið, ef menn hefðu fókuserað á þessi stóru ákvæði. Síðast en ekki síst eru það ákvæði sem meðal annars tengjast 79. gr. en líka aðildarviðræðunum við ESB, en ekki síður því sem meðal annars hefur komið fram í Noregi að lýðræðishallinn í tengslum við EES-samninginn er meiri en menn gerðu ráð fyrir í upphafi. Menn vissu af lýðræðishallanum þegar menn gengu að samningunum um Evrópska efnahagssvæðið en síðan hefur komið í ljós að lýðræðishallinn er meiri, meðal annars vegna aukins vægis Evrópuþingsins, minnkandi vægi framkvæmdarstjórnar og margt fleira hefur stuðlað að því að lýðræðishallinn hefur aukist. Hvort sem við samþykkjum aðildarsamning við ESB eða ekki þurfum við að breyta stjórnarskránni, ég held að það liggi alveg ljóst fyrir. Ef menn hefðu sagt já, verið tilbúnir til að fara í þessar breytingar hefði stórum áfanga líka verið náð. Þetta eru fjögur stór atriði sem menn hefðu hugsanlega náð pólitískri samstöðu um og menn eru að missa af því tækifæri vegna flumbrugangs, vegna þráhyggju og pólitísks yfirgangs hvað þetta varðar.

Ég ætla hins vegar að halda áfram að fjalla um þingsályktunartillöguna sem slíka. Ég sé að gerðar hafa verið breytingartillögur og ég fagna því. Þó að ég sé ekki efnislega sammála öllu því sem þar kemur fram er ég fegin því að tekið sé tillit til umræðunnar sem hér hefur orðið og athugasemda sem settar voru fram í fyrri umr. um málið. Ég hef sjálf lagt fram breytingartillögu og mun ræða það þegar færi gefst og í samhengi við þingsköp.

Ég benti á það við fyrri umr. að mikill vilji virðist vera til þess að setja fleiri mál í þjóðaratkvæðagreiðslu, ef farið verður eftir tillögum stjórnlagaráðs verður það reyndin. Við höfum hins vegar ekki rætt það og ég held að það sé stóra málið í þessu öllu að við höfum ekki enn fengið tækifæri til að ræða málið efnislega. Við erum enn að ræða formið á því hvernig við ætlum að breyta stjórnarskránni, en höfum ekki enn farið efnislega í umræðu um tillögur stjórnlagaráðs eða aðrar tillögur frá þingmönnum um það hvernig við viljum breyta stjórnarskránni.

Ég hef bent á það, eins og ég gat um áðan, að með þeim breytingum sem hugsanlega kynnu að verða á stjórnarskránni, með auknu vægi þjóðaratkvæðagreiðslna, er vægi Alþingis um leið að minnka. Færa má sterk og gild rök fyrir því að verið sé að taka ákveðið hlutverk frá þinginu, sem sumum kann að líka vel. Ég held að við þurfum hins vegar að ræða það vel, fara betur yfir það en gert hefur verið enda höfum við ekkert rætt það. Vegna minnkandi vægis þingsins væri þá hægt að rökstyðja það að fækka þingmönnum úr 63 í 51. Ég held að það sé líka álitamál sem er eðlilegt, fyrst menn eru að bera eitt og annað undir þjóðina, að spyrja þjóðina út í. Ég veit ekki betur en að í þeim kosningum sem reynt var að fara í varðandi stjórnlagaþingið hafi margir frambjóðendur haft þetta atriði efst á stefnuskrá sinni. Af hverju er sú tillaga ekki á meðal tillagna frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar? Ég tel eðlilegt að spurt sé að þessu, ekki síst í ljósi þess að við þurfum að leita ýmissa leiða til að spara í ríkisrekstrinum eins og efnahagsástandið er.

Talandi um stjórnlagaþingið og síðan stjórnlagaráðið — það var samþykkt með 30 atkvæðum á þingi að tilnefna 25 manns í stjórnlagaráð — þá fengu menn þá hugmynd að bera tillögur stjórnlagaráðs undir þjóðina. Ég vil í því sambandi benda á merkilega grein eftir Pawel Bartoszek sem að mínu mati er einn áhugaverðasti penninn í fjölmiðlum í dag. Hann var kosinn á stjórnlagaþingið á sínum tíma og fékk mikið fylgi og var síðan einn af þeim 25 sem Alþingi kaus í stjórnlagaráð. (Utanrrh: Ég kaus hann.) Já, hæstv. utanríkisráðherra kaus Pawel og ég fagna því, það gerði ég líka og örugglega fleiri sem mundu vilja upplýsa það. Hann er ákveðin rödd sem við eigum að hlusta meira á. Rödd hans endurspeglast mjög vel í þessari grein sem ég ætla að fá að vitna í því að hann kemur mun betur orðum að hlutunum en ég. Ég bendi þingheimi á það sem hann segir um þá leið sem verið er að fara til að reyna að breyta stjórnarskránni.

Pawel skrifar þetta í Deiglupistli 21. febrúar 2012, með leyfi forseta:

„Síðari umræða um meðferð á tillögum stjórnlagaráðs var ekki þingsins besta stund. Í raun er öll meðferð Alþingis á tillögum ráðsins þinginu til vansa og skipulag þess leiðangurs sem fram undan er með þeim hætti að jafnvel þolinmóðustu farþegarnir geta ekki annað en stigið frá borði. Því miður.

Í stuttu máli þetta: Þegar stjórnlagaráðið skilaði af sér verki sínu gerði það það með eftirfarandi orðum í skilabréfi með tillögunum:

„Komi fram hugmyndir um breytingar á frumvarpi stjórnlagaráðs lýsa fulltrúar í stjórnlagaráði sig reiðubúna til að koma aftur að málinu áður en þjóðaratkvæðagreiðsla fer fram.“

Og hvaða tillögur liggja á þessari stundu fyrir af hálfu þingsins varðandi breytingar á frumvarpi stjórnlagaráðs? Engar. Ekki ein einasta. Kannski koma einhverjar fyrir helgi, segja menn. Kannski eftir helgi.“

Þetta er eitt af kjarnaatriðunum sem við sjálfstæðismenn höfum verið að benda á. Við hér í þinginu höfum ekki einu sinni fengið tækifæri eða svigrúm í fundarstörfum Alþingis til að ræða efnislega um tillögur stjórnlagaráðs. Ég hef ekki fengið tækifæri til að ræða efnislega um tillögur stjórnlagaráðs og ég er ekki þar með að segja að ýta eigi þeim öllum út af borðinu, síður en svo. Ég er ekki sammála þeim öllum, það er margt sem mér finnst ekki gott í þeim en líka margt sem ég tel rétt að við fáum tækifæri til að ræða. Við höfum ekki enn fengið það tækifæri.

Pawel heldur áfram, með leyfi forseta:

„Kannski fær ráðið einhverjar spurningar frá einni þingnefnd. Kannski. En mér sýnist í fljótu bragði að á því hálfa ári sem þingið hefur haft tillögurnar til umræðu“ — hugsið ykkur, hálft ár sem þingið hefur haft þær til meðferðar en við höfum ekki enn fengið að ræða þær hér í þingsalnum — „hafi ekki farið fram neinar raunverulegar efnislegar umræður um inntak þeirra sjálfra. Né heldur hefur þingið farið í þá vinnu að rýna tillögurnar af einhverri alvöru, ýmist til að finna hugsanlega ágalla eða styrkja grundvöll þeirra stjórnarskrárbreytinga sem lagðar hafa verið fram.“

Ég tel að þeir stjórnarliðar sem hafa mikla trú á tillögum stjórnlagaráðs — og það er merkilegt að ég hef ekki enn fengið að heyra skoðanir hæstv. forseta, hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur, á tillögum stjórnlagaráðs. Ég hef ekki enn fengið að heyra skoðanir fólks eða skiptast á skoðunum við það um tillögurnar. — Það má spyrja: Erum við að sinna okkar vinnu með því að fara þessa leið? Það má efast um að svo sé.

Síðan segir Pawel:

„Þetta eru forkastanleg vinnubrögð. Það má eflaust reyna að afgreiða alla gagnrýni þeirra sem efins eru um þörf á ítarlegum breytingum á stjórnarskránni með því að þeir“ — eins og til dæmis við sjálfstæðismenn — „vilji ekki leyfa þjóðinni að kjósa um stjórnarskrá“ — hafið þið heyrt þennan frasa einhvern tíma? — „eða með öðrum viðlíka frösum, en staðreyndin er sú að þeir þingmenn sem ýtt hafa þessu máli áfram nú hafa algjörlega vanrækt þær skyldur sem lagðar eru á þá sem stjórnarskrárgjafa.“

Hann bendir á annað athyglisvert atriði:

„Aðeins um þjóðaratkvæðagreiðslur því það er nokkuð sem mun vera rætt mikið um í þessu samhengi. Í Sviss fara tillögur sem lagðar eru í þjóðaratkvæði samt í þinglega meðferð. Hinir kjörnu fulltrúar mynda sér skoðun á tillögum sem koma frá almenningi, stundum leggja þeir til við kjósendur að þeir felli tillögurnar, stundum leggja þeir til breytingar sem lagðar eru í atkvæði samhliða. Skylda þinga er ekki minni þótt ferlið endi með þjóðaratkvæði.“

Ég er sammála Pawel í þessu. Þó að við viljum gjarnan að ýmsir þættir gangi til þjóðaratkvæðagreiðslu verður skylda okkar til að fjalla um málið ekki minni. Ég vil enn og aftur benda á að við erum að fjalla um stjórnarskrána og við erum ekki enn farin að fjalla efnislega um málið.

Pawel heldur áfram:

„Hér virðast menn hins vegar telja sig sérstaka riddara beins lýðræðis þegar þeir setja hluti í þjóðaratkvæði, án þess að taka til þeirra afstöðu eða skoða þá að nokkru ráði.

Staðan er því þessi: Eftir fjóra mánuði verður kosið um einn hlut sem ekki er búið að skoða og nokkra aðra hluti sem ekki er búið að ákveða. Um niðurstöðuna verður rifist. Hvað ef 51% samþykkir tillögurnar? Er mönnum þá stætt á að breyta þeim? Hvað ef 51% fellir? Ætla menn þá að taka því eða reyna að lappa upp á tillögurnar? Hvernig verður farið með úrslit undirspurninganna?“ — Og þær eru orðnar ansi margar eftir breytingar frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. — „Ég hef hvergi séð að þetta væri skýrt. Nefndarálit með tillögunni ber vonir um að „niðurstöður slíkrar atkvæðagreiðslu nýtist Alþingi vel við áframhaldandi meðferð málsins.“ Hljómar nákvæmlega þannig að stjórnmálamenn eigi að lesa í „leiðsögn almennings“ eftir eigin geðþótta. Það er ekki góð hugmynd.

Það er vissulega þakkarvert að maður sé í hópi þeirra sem þingið treystir á ný til að hjálpa til við það ferli að leggja til breytingar á stjórnarskrá. En menn þurfa að þekkja sín takmörk. Ráðgefandi stjórnlagaráð mun ekki setja stjórnarskrá. Það mun þingið gera. Og fyrst þingið virðist hvorki hafa skoðun á stjórnarskrá né vilja til að rýna af viti í þær tillögur sem því berast, þá hef ég að sinni takmarkaðan áhuga á að veita því frekari ráð.“

Þetta segir Pawel Bartoszek og skrifar undir þessa grein sem fyrrverandi formaður C-nefndar stjórnlagaráðs.

Ég tel þessi orð Pawels umhugsunarinnar virði. Við sem hér erum erum ekki að fjalla efnislega um það sem máli skiptir, um það hvernig við viljum breyta stjórnarskránni. Um það höfum við ekki rætt.

Ég vil því, frú forseti, benda á þessi orð Pawels Bartoszeks og um leið ítreka það, sem margoft hefur komið fram af hálfu okkar sjálfstæðismanna, að við erum tilbúin til að taka þátt í að breyta stjórnarskránni. Við viljum gera það þannig að sem víðtækust sátt náist og við viljum vanda til verka í því mikilvæga efni.