140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[23:33]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tel rétt að gera þinginu það kunnugt að á stuttum fundi formanna þingflokka fyrir 20 mínútum gerðum við fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna lokatilraun til þess að ná samkomulagi í þessari umræðu og könnuðum hug annarra flokka til þess að ljúka umræðu og að atkvæðagreiðsla mundi hefjast og henni yrði lokið fyrir miðnætti. Öllum er ljóst að til að þetta mál geti gengið alla leið og verði leitt til lykta þarf að ljúka atkvæðagreiðslu fyrir miðnætti. Hins vegar var skýr vilji hjá formanni þingflokks sjálfstæðismanna að svo yrði ekki. Sjálfstæðismenn voru ekki tilbúnir til að koma til móts við okkur og semja um lyktir þessa máls. Fulltrúi Framsóknarflokksins var hins vegar tilbúinn til að gera það og ber að þakka honum fyrir það. Því miður hefur ekki tekist samkomulag með fulltrúum flokkanna um að ljúka þessari umræðu og hefja atkvæðagreiðslu svo að sómi Alþingis verði sem mestur.