140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[23:34]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. Magnúsi Orra Schram um fund þingflokksformanna ásamt forseta fyrir nokkrum mínútum þar sem var gerð úrslitatilraun til að ljúka þessu máli með atkvæðagreiðslu fyrir klukkan tólf, en hún þarf að fara fram eðli málsins vegna eigi það að ganga sinn farveg eins og ætlast var til. Það tókst ekki. Einn þingflokksformaður lagðist gegn þeim hugmyndum á meðan allir aðrir lýstu sig tilbúna til að leysa málið og semja um að ljúka því fyrir klukkan tólf með atkvæðagreiðslu þannig að það gæti gengið áfram.

Það er miður, verð ég að segja, að þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins skuli leggjast gegn því að klára þetta mál. Það hefur fyrst og fremst verið Sjálfstæðisflokkurinn sem hefur reynt að halda því í gíslingu í þinginu með ótrúlegum málflutningi í allan dag, eingöngu til að tefja það, eyðileggja það og koma í veg fyrir að fólkið í landinu fái að segja skoðun sína á því hvernig ný stjórnarskrá lýðveldisins eigi að hljóma.