140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[23:35]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Mér finnast það hin mestu öfugmæli að heyra hv. þm. Magnús Orra Schram tala um sóma Alþingis og þetta mál í sömu setningunni og reyna að setja upp eitthvert leikrit til þess að kenna nú Sjálfstæðisflokknum hinum illa um þetta.

Staðan er þessi: Ríkisstjórn Íslands hefur haft frá því í október tækifæri til að leggja þetta mál fyrir þingið og ná þessari dagsetningu 30. júní, bera það og hafa um það mikinn tíma og allt samráð sem óskað gæti verið eftir. Það var ekki gert og þess vegna er ríkisstjórn Íslands runnin út á tíma með þetta mál. Það er einfaldlega ekki hægt að kenna einum eða neinum öðrum um það. Ég vil benda á að þetta svokallaða málþóf sem hér er verið að setja á svið er algjörlega (Forseti hringir.) fjarstæðukennt (Gripið fram í.) vegna þess

(Forseti (ÁRJ): Þögn í þingsalnum.)

að til dæmis sú er hér stendur hefur talað í heilar 20 mínútur í þessu máli. [Frammíköll í sal.] (Forseti hringir.) Forsætisráðherrann og helsti stuðningsmaður þessa máls, (Forseti hringir.) hún kann málþóf. Hún talaði í 11 klukkutíma (Forseti hringir.) í einni ræðu.