140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[23:39]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er því miður orðin staðreynd sem maður hefur óttast í allan dag og síðustu daga, Sjálfstæðisflokknum hefur orðið að ósk sinni. Hann hefur með málþófi talað þetta brýna hagsmunamál þjóðarinnar út af borðinu. Hann hefur einn flokka hafnað því að ná samkomulagi um að málið verði klárað og þjóðin fái að ganga til kosninga um atriði sem snúa að stjórnarskrá Íslands samhliða forsetakosningum í sumar. Meirihlutavilji Alþingis hefur verið hunsaður með bolabrögðum lítils minni hluta alþingismanna. (Gripið fram í: Það er rétt.) Það er ekki nema von að virðingu Alþingis setji niður og hafi þeir skömm sem bera þar ábyrgð á. [Frammíköll i þingsal.]

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður um hljóð í þingsal.)