140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[23:43]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Þetta er allt hið undarlegasta mál. Það liggur fyrir að það hefur verið til umfjöllunar í nefnd hér í þinginu í marga mánuði og næg tækifæri hafa verið til að taka það út úr nefnd og afgreiða. Í stað þess kýs stjórnarmeirihlutinn að koma málum þannig fyrir að seinasta daginn áður en umræddur frestur rennur út er málið sett á dagskrá.

Ég er einlæglega þeirrar skoðunar að mál af þessari stærðargráðu, sem eru grunnlögin í landinu, eigi að fá lágmarksumræðu. Hér er sagt að við höfum staðið í málþófi og hvað erum við búin að tala lengi í dag, eru það ekki einhverjir átta klukkutímar? (Gripið fram í: Það er nú ekki mikið.) Einhvern tíma verður náttúrlega stysta málþóf í sögunni að verða til. Sennilega er þetta þá það, ef þetta er málþóf. En ég á eftir að flytja mína ræðu, ég hef ekki flutt enn þá ræðu í dag (Forseti hringir.) sem sýnir náttúrlega að það er alls ekki um málþóf að ræða vegna þess að ég (Forseti hringir.) tel að ég hafi fram að færa málefnaleg rök í þessu máli.