140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[23:44]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (um fundarstjórn):

[Háreysti á þingpöllum.] Frú forseti. Það var 29. júlí á síðasta ári sem skilabréf stjórnlagaráðs var undirritað. Nú er kominn mars á árinu 2012 og þá er lögð fram tillaga, nokkrum dögum áður en frestur rennur út til þess að afgreiða slíka þingsályktunartillögu á grundvelli laga um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna, um hvort þjóðin vilji nota þá tillögu til grundvallar að frumvarpi fyrir nýja stjórnarskrá.

Hvað er stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd búin að vera að gera í allan vetur? Koma saman einni lítilli spurningu, það er allt og sumt. Ein lítil spurning um þetta mikilvæga atriði, sem er svona mikið grundvallaratriði. (Gripið fram í: Nei.) Og ef menn vissu fyrir fram að frestur væri að renna út, hvers vegna lögðu menn ekki (Forseti hringir.) einfaldlega fram lagafrumvarp á Alþingi og settu sérlög um að hér ætti að fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla? (Forseti hringir.) Þetta er heimatilbúið vandamál stjórnarflokkanna. Það hefur verið ömurlega haldið á málinu (Forseti hringir.) og umræðan verður bara að fá að klárast.

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður þingmenn um að gefa ræðumönnum hljóð.)