140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[23:46]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Maður kynni að hafa samúð með sjónarmiðum Sjálfstæðisflokksins um að þeir vildu ræða málin vel og til enda ef ég hefði ekki upplifað þessa stund áður á hv. Alþingi. Fyrir kosningarnar 2009 var rætt hér um hugtakið þjóðareign, hér var rætt um stjórnarskrána, hér var rætt um hvort liðka ætti til varðandi þjóðaratkvæðagreiðslur (Gripið fram í.) og þá fóru menn í málþóf þangað til við hröktumst frá og urðum að gefast upp þremur dögum fyrir kosningar. Hve margar ræður voru fluttar þá um fundarstjórn forseta?

Að halda því fram að Sjálfstæðisflokkurinn hafi einhvern einasta áhuga á að breyta stjórnarskránni eru öfugmæli fyrir mig eftir að hafa upplifað og fylgst með þeirri umræðu sem fór fram hér í dag. Menn geta kallað þetta hvað sem þeir vilja en þeir eiga þá að koma fram og segja það hreinskilnislega að þeir óttist að stjórnarskránni verði breytt greinilega í andstöðu við einhverja sem eru Sjálfstæðisflokknum þóknanlegir. (Forseti hringir.)

Ég lýsi yfir vanþóknun minni á þeirri aðferðafræði sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur beitt ítrekað í þinginu á þeim skamma tíma sem ég haft tækifæri til að vinna hér. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)