140. löggjafarþing — 81. fundur,  30. mars 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[10:33]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um veiðigjöld. Þetta er þskj. 1053, 658. mál þessa þings. Í samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna er fjallað um þessi mál og lagður viss grunnur að stefnu þeirri í auðlinda- og sjávarútvegsmálum að því er varðar nýtingu á sameiginlegum auðlindum. Þar segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Standa þarf vörð um sameign þjóðarinnar á náttúruauðlindum sínum. Einn af hornsteinum umhverfisstefnu ríkisstjórnarinnar er að þær séu nýttar með sjálfbærum hætti.“

Enn fremur:

„Með sérstöku ákvæði í stjórnarskrá verði undirstrikað að fiskstofnarnir umhverfis landið séu sameign þjóðarinnar. Úthlutun aflaheimilda er tímabundinn afnotaréttur og myndar ekki undir neinum kringumstæðum eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir heimildunum.“

Ég tel að þessari stefnumörkun sé mjög vel til haga haldið, bæði í því frumvarpi sem ég mæli fyrir hér og nú og frumvarpi því sem starfandi sjávarútvegsráðherra mælti fyrir í fyrradag. Þar er í 1. gr., eins og hv. þingmenn sjálfsagt muna, rækilega kveðið á um að fiskstofnarnir og auðlindir sjávarins innan íslenskrar lögsögu séu ævarandi sameign þjóðarinnar. Hér eru sömuleiðis á ferðinni þau meginsjónarmið sem liggja til grundvallar þessu frumvarpi, annars vegar að náttúruauðlindir landsins séu sameign þjóðarinnar og að arður sem rekja má beint til hagnýtingar náttúruauðlinda sé þar með eign sama aðila, þ.e. þjóðarinnar, og að aðrir en hún geti ekki gert tilkall til hans á grundvelli eignarréttar.

Nú er rétt að hafa þann fyrirvara á að hér erum við kannski ekki að tala um eignarrétt í hefðbundnum skilningi heldur er um að ræða einhvers konar ævarandi verðmæti sem tilheyra samfélaginu á Íslandi, tilheyra Íslandi sem slíku, og í þessu tilviki er niðurstaða frumvarpanna mjög hliðstæð því sem varð að lokum niðurstaðan í Noregi, að um væri að ræða einhvers konar ævarandi sameign en ekki eign í beinum eignarréttarlegum skilningi, enda kannski vandséð að neinn geti átt það sem í grunninn á sig sjálft, stofnana í hafinu.

Hins vegar er það sjónarmið að þjóðin ber ábyrgð á náttúruauðlindum sínum, og stjórnvöldum ber þar af leiðandi skylda til að sjá um að þær séu nýttar á sjálfbæran hátt. Þar með er stjórnvöldum líka heimilt og skylt að grípa til nauðsynlegra ráðstafana í þeim tilgangi, þar á meðal að nota skatta eða efnahagsleg stýritæki sem stjórntæki.

Afrakstur fiskstofna í hafinu umhverfis landið er háður náttúrulegum takmörkunum eins og við öll þekkjum og rétturinn til að nýta þá takmörkuðu náttúruauðlind er auðvitað hjá þjóðinni. Stjórnvöldum er rétt og skylt að stýra nýtingu þessara auðlinda og grípa til nauðsynlegra ráðstafana, svo sem aðgangsstýringar eða aðgangstakmarkana, leyfisveitingar gegn gjaldi og skattheimtu. Með því er unnt að tryggja almenningi beina hlutdeild í þeim arði sem auðlindin skilar á hverjum tíma. Í umgengni um náttúruauðlindir þjóðarinnar og nýtingu á þeim þarf að gæta þess að þær séu nýttar með sjálfbærum hætti. Í raun er það mikilvægasta einstaka grundvallarregla þessara mála, enda henni gert hátt undir höfði í markmiðsgrein frumvarps til laga um stjórn fiskveiða.

Ekki má ganga á auðlindirnar, hvorki í náttúrulegum skilningi né þannig að dregið sé úr efnahagslegu verðmæti þeirra. Að þessum atriðum er sömuleiðis vikið í þeim kafla samstarfsyfirlýsingar stjórnarflokkanna þar sem fjallað er um sjávarútvegsmál en þar segir, með leyfi forseta:

„Markmið sjávarútvegsstefnu ríkisstjórnarinnar er að fiskveiðar umhverfis landið séu hagkvæmar og skapi verðmæti og störf en séu jafnframt sjálfbærar og vistvænar og í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar um verndun vistkerfa, lífríkis og hafsbotns. […] Það er því afar mikilvægt að skapa greininni bestu rekstrarskilyrði sem völ er á og treysta þannig rekstrargrundvöllinn til langs tíma, en jafnframt verði leitað sátta um stjórn fiskveiða.“

Er því gengið út frá því að fiskveiðum verði stjórnað með tilliti til sjálfbærrar nýtingar og í frumvarpinu er lögð áhersla á fjárhagslega hagkvæmni útgerðar og verðmætasköpun í atvinnugreininni.

Í þeim tilgangi að undirbúa gjaldtökuþáttinn í breytingum á stjórn fiskveiða ákvað ríkisstjórnin að fela nefnd að gera tillögur um mótun heildstæðrar stefnu um framtíðarfyrirkomulag skattlagningar í sjávarútvegi. Átti sú nefndaskipan sér meðal annars aðdraganda í frumvarpi til laga um stjórn fiskveiða sem lagt var fram á 139. löggjafarþingi en fékk þá ekki afgreiðslu. Í bráðabirgðaákvæði var hins vegar ákvæði um skipun slíkrar nefndar. Skyldi hún hafa það verkefni að móta heildstæða stefnu um framtíðarfyrirkomulag skattlagningar í sjávarútvegi. Horfa skyldi til þess hvað sé eðlilegt endurgjald fyrir aðgang að hinni sameiginlegu auðlind og hvernig tengja megi skattinn breytilegum hagnaði í sjávarútvegi. Nefndin starfaði í nánum tengslum við undirbúning frumvarps til laga um stjórn fiskveiða. Frumvarpið er í meginatriðum byggt á tillögum og niðurstöðum þessarar nefndar og er álitsgerð hennar birt sem fylgiskjal hér með frumvarpinu.

Frumvarpið byggir eins og áður segir á þeirri meginforsendu að náttúruauðlindir landsins séu sameign þjóðarinnar og arður sem rekja má beint til þeirra, þ.e. að rentan tilheyri þjóðinni. Þegar öðrum er veittur réttur til að fénýta auðlindirnar ber að tryggja þann rétt þjóðarinnar með gjaldtöku, þ.e. að leggja beri auðlindagjöld í einhverju formi á nýtingu auðlindanna eða þann fjárhagslega ávinning sem hún skapar.

Forsenda fyrir innheimtu auðlindagjalda er að renta myndist við nýtingu auðlindarinnar, þ.e. að tekjur séu umtalsvert meiri en tilkostnaður að meðtalinni eðlilegri ávöxtun fjármagns í starfseminni. Varla fer á milli mála að veruleg auðlindarenta hefur verið og er til staðar í fiskveiðum á Íslandi eins og verð á kvóta sýnir, hvort sem er á aflahlutdeild eða aflamarki. Eins og fram kemur í álitsgerð framangreindrar nefndar og víðar er óhætt að slá því föstu að fiskveiðiauðlindin skili umtalsverðri rentu. Virðist ekki óvarlegt að ætla að hún hafi á síðasta áratug verið nálægt 30 milljörðum kr. að meðaltali á ári á verðlagi ársins 2010. Hún er hins vegar mjög breytileg eftir árum og eru ákvæði frumvarpsins löguð að því.

Auknar tekjur og hagnaður í sjávarútvegi á síðustu árum, þrátt fyrir aflatakmarkanir, koma meðal annars til af bættu skipulagi veiða, þróun í tækni og markaðsmálum. Þar á greinin sjálf að sjálfsögðu stærstan hlut. Þetta kemur fram í góðum tekjum þeirra sem starfa í sjávarútvegi og ríkulegri ávöxtun fjármagns í greininni. Hinn eiginlegi umframarður, rentan, er hins vegar líka kominn til vegna þeirrar ákvörðunar að takmarka framleiðsluna. Við mat á rentunni þarf að taka tillit til eðlilegrar ávöxtunar á fjárfestingum í greininni.

Sú skoðun að ástæða sé til að skattleggja fiskveiðar sérstaklega sem og hagnað annarra sem nýta og hafa hag af aðgangi að auðlindum í sameign þjóðarinnar er ekki ný af nálinni. Þetta álit kom meðal annars mjög sterkt fram í skýrslu auðlindanefndar frá árinu 2000 en þar segir meðal annars að auðlindanefndin sem þá starfaði sé, með leyfi forseta, „þeirrar skoðunar að rétt sé að stefna að greiðslu fyrir afnotarétt af öllum auðlindum sem eru í eigu ríkis eða þjóðar af tvennum ástæðum: annars vegar til að greiða kostnað ríkisins af stjórn og eftirliti með viðkomandi auðlind, hins vegar til að tryggja þjóðinni í heild sýnilega hlutdeild í þeim umframarði (auðlindarentu) sem nýting hennar skapar“.

Í þessu koma fram þau sjónarmið sem mótað hafa tillögur frumvarps þessa, annars vegar sjálfbærnirök, þ.e. að tekjur af auðlindinni beri uppi þann kostnað sem umsýsla um hana hefur í för með sér eða lagt er í til að auka verðmæti hennar og nýtingu, hins vegar sanngirnis- og jafnræðisrök þess efnis að allir þeir sem eiga auðlindina njóti hennar.

Virðisauki í sjávarútvegi á fyrsta áratug aldarinnar, þ.e. samtala þeirra tekna sem verða til skiptanna milli þeirra sem leggja til framleiðslunnar með vinnu, fjármagni eða afnotum af náttúruauðlindum, var að meðaltali um 115 milljarðar kr. á ári á verðlagi ársins 2010. Framlag vinnunnar var að jafnaði um 59%, framlag fjármagns miðað við eðlilega ávöxtun um 17% og framlag auðlindarinnar um 24%.

Skipting þessa virðisauka milli aðila var hins vegar nokkuð önnur. Launþegar fengu 59% virðisaukans í samræmi við framlag sitt, eigendur fjármagnsins hafa fengið í sinn hlut um 40% virðisaukans en eigandi auðlindarinnar fékk í sinn hlut um 1%. Ljóst er að mikið skortir á að virðisaukanum sé skipt í samræmi við þau sjónarmið sem voru reifuð að framan.

Megintilgangur þessa frumvarps er að tryggja þjóðinni endurgjald fyrir nýtingu á þessari eign hennar. Í stefnu ríkisstjórnarflokkanna sem vísað er til í upphafi og skýru ákvæði núgildandi fiskveiðilöggjafar þess efnis að þjóðin sé eigandi fiskveiðiauðlindarinnar felst að þjóðin ein getur gert tilkall til þess arðs af fiskveiðum sem byggir á tilvist auðlindarinnar sjálfrar, þ.e. tekna umfram það sem aðrir geta gert tilkall til vegna framlags á vinnu eða fjármagni vegna nýtingar á auðlindinni. Með hliðsjón af þessu verður að líta svo á að eðlilegt endurgjald fyrir aðgang að fiskveiðiauðlindinni sé sú auðlindarenta sem hún skapar á hverjum tíma eftir að búið er að tryggja öðrum framleiðsluþáttum, þ.e. vinnu og fjármagni, eðlilegt endurgjald. Það er í samræmi við þessa afstöðu og áðurnefnt tvíþætt markmið við skattlagningu tekna af nýtingu auðlinda, þ.e. að standa undir kostnaði og tryggja rétt eiganda auðlindarinnar, sem lagt er til í frumvarpinu að við skattlagningu sjávarútvegs verði beitt tvískiptri aðferð sem annars vegar veitir aðgang að auðlindinni með greiðslu á hlutdeild í kostnaði hins opinbera við sjávarútveg og taki hins vegar til þjóðarinnar auðlindarentuna eftir að öðrum framleiðsluþáttum, vinnu og fjármagni, hafa verið tryggðar tekjur fyrir þeirra framlög. Í því hefur þess einnig verið gætt að þessir aðilar haldi þeim hvata sem vera þarf til að tryggja hagræðingu og framsækna fiskveiðistarfsemi.

Frumvarp þetta felur í sér skattlagningu í sjávarútvegi sem byggir á almennri stefnu í skattlagningu auðlinda í sameign þjóðarinnar. Það byggir á þrennu, í fyrsta lagi samræmdri stefnu sem gildi fyrir allar auðlindir sem í sameign þjóðarinnar eru og fénýttar í verulegum mæli og að á nýtingu þeirra og tekjur af henni verði lögð gjöld og skattar sem tryggi þjóðinni þá rentu af auðlindunum sem henni ber. Í öðru lagi að þjóðin geri tilkall til allrar rentu af náttúruauðlindum sem eru sameign þjóðarinnar. Gjaldtaka fyrir nýtingu auðlinda þjóðarinnar og skattlagning tekna á að skila auðlindarentunni í sameiginlega sjóði landsmanna. Í þriðja lagi að til þess að auðlindirnar verði nýttar og skili þjóðinni arði verður að sjálfsögðu að skapa þeim sem auðlindina nýtir hæfilegan hvata, m.a. með því að tryggja honum nægilega góða ávöxtun með tilliti til áhættu.

Í samræmi við þetta eru eftirfarandi sjónarmið höfð að leiðarljósi hvað varðar fiskveiðiauðlindina:

a) að í gjaldtöku og skattlagningu sjávarútvegs verði gengið út frá sömu grundvallarsjónarmiðum og við auðlindaskattlagningu almennt,

b) að umfang auðlindarentu í sjávarútvegi sé mismunandi eftir tegund veiða og geti verið breytilegt frá ári til árs og skattlagning þurfi að vera sveigjanleg og aðlagast sjálfkrafa aðstæðum eins og þær eru á hverjum tíma,

c) að umtalsverður opinber kostnaður sé af því að vernda fiskveiðiauðlindina og til að tryggja að hún geti áfram orðið grundvöllur atvinnustarfsemi og eðlilegt sé að hann sé greiddur af sjávarútveginum og að hluti gjaldtökunnar miðist við hann,

d) að gjaldtakan miðist við það að skila sem stærstum hluta auðlindarentunnar í ríkissjóð og

e) að við gjaldtökuna verði gætt að hagkvæmni við nýtingu og hvata til hagkvæmni í rekstri þeirra fyrirtækja sem auðlindina nýta.

Í samræmi við þetta er í frumvarpinu lagt til að skattlagningu í sjávarútvegi verði í meginatriðum hagað þannig að lagt verði á almennt veiðigjald í krónum á þorskígildiskíló á aflamark hvers árs samkvæmt úthlutuðum veiðiheimildum og/eða lönduðum afla. Gjaldið verði ákveðið með hliðsjón af því að tekjurnar standi undir heildarkostnaði ríkisins af fiskveiðistjórnarkerfinu og þjónustu við sjávarútveg. Síðan verði lagt sérstakt veiðigjald í krónum á þorskígildiskíló á aflamark umfram tiltekið lágmark samkvæmt úthlutuðum veiðiheimildum og/eða lönduðum afla. Gjaldið verði misjafnt eftir því hvort um er að ræða botnfisk eða uppsjávarfisk. Gjaldið í hvorum flokki verði ákveðið árlega á grundvelli síðustu fyrirliggjandi upplýsinga um afkomu fiskveiða og fiskvinnslu.

Sérstakt veiðigjald í hvorum flokki um sig skal miða við áætlaða rentu í fiskveiðum að viðbættri áætlaðri rentu í vinnslu á afla úr þeim veiðum. Áætlaða rentu skal reikna sem heildartekjur af aflasölu og sölu á unninni framleiðsluvöru að frádregnum almennum rekstrarkostnaði án afskrifta og fjármagnsliða en að frádreginni reiknaðri ávöxtun á fé sem bundið er í greininni og að frádregnu almenna veiðigjaldinu.

Sérstakt veiðigjald skal vera ákveðið hlutfall af samtölu áætlaðrar rentu í veiðum og vinnslu.

Í frumvarpinu er miðað við að almenna veiðigjaldið gefi af sér um 4 milljarða kr. í tekjur og að þeirri fjárhæð sé jafnað á aflamagn í þorskígildiskílóum. Fjárhæðin er miðuð við gróft mat á opinberum kostnaði við stjórn fiskveiða og þjónustu við sjávarútveg. Þar sem almenna veiðigjaldið dregst frá sérstaka gjaldinu við ákvörðun þess gjalds hefur nákvæmni í kostnaðarviðmiðun ekki áhrif á skattlagninguna í heild nema í jaðartilvikum.

Sérstaka veiðigjaldið er samkvæmt frumvarpinu reiknað sem 70% af rentu á þorskígildiskíló í hvorum veiðiflokki og frá þeirri fjárhæð dregst almenna veiðigjaldið. Hafa þarf í huga að þetta gjald er ekki reiknað á heildartekjur eða hagnað heldur á rentuna eingöngu, þ.e. tekjurnar eftir að allur kostnaður og rífleg endurgreiðsla fyrir það fjármagn sem lagt hefur verið fram hefur verið tekin til hliðar. Þá er það þess eðlis að það lagar sig mjög hratt að afkomunni. Sé hún ekki meiri en svo að hún nægi til að skila þeirri ávöxtun fjármagns sem miðað er við verður sérstaka veiðigjaldið ekkert en fer svo hækkandi með bættri afkomu.

Þótt meginmarkmið frumvarpsins sé að tryggja hlutdeild almennings í auðlindarentunni er þeim markmiðum að tryggja undirstöðu hagkvæms sjávarútvegs einnig mætt, enda mjög mikilvægt, í fyrsta lagi með því að gjaldtakan verði ekki verður meiri en sem nemur opinberum kostnaði nema verulegur hagnaður sé af starfseminni. Í öðru lagi með því að reikna með hárri ávöxtun á fjármagn, 8% í tilviki veiða og 10% í tilviki vinnslu. Það eru að sjálfsögðu hærri raunvextir en gerist í atvinnurekstri almennt og ættu að gera það mögulegt að fjármagna starfsemina og meðal annars vera lánastofnunum trygging fyrir fjármögnun. Ofan á þessa ávöxtun eru útgerðinni síðan tryggð 30% af hagnaði umfram hana.

Í þessu sambandi er rétt að minnast á tvennt. Annars vegar er í frumvarpinu gert ráð fyrir að létta gjaldbyrði minni útgerða nokkuð með því að hafa fyrstu 30 tonnin af afla hvers báts gjaldlaus og að af næstu 70 tonnum sé greitt hálft gjald. Er með því verið að koma til móts við og taka tillit til þess að afkoma í rekstri smærri eininga hefur verið undir meðallagi. Með þessu er verið að auðvelda útgerð frá minni byggðum og mæta þeim fasta kostnaði sem fylgir að sjálfsögðu hverri einingu í rekstri af þessu tagi. Hins vegar er í frumvarpinu bráðabirgðaákvæði sem lækkar sérstaka veiðigjaldið tvö fyrstu gildisár þess umtalsvert. Er það meðal annars gert í þeim tilgangi að gefa útgerðum landsins aðlögunartíma og tækifæri til að nota góða afkomu sem reiknað er með á þessum tíma ef svo heldur sem horfir til að halda áfram að greiða niður áhvílandi skuldir.

Þá er rétt að minna á að í frumvarpinu eru heimildir til þess að lækka eða undanþiggja greiðslu sérstaks veiðigjalds ef sýnt þykir að afkoma við veiðar á einstökum tegundum eða innan einstakra sviða sjávarútvegsins víkur verulega frá hinu almenna. Þessa frádráttarliði alla verður að hafa í huga, virðulegur forseti, þegar rætt er um hinar háu brúttótölur sem mjög hafa orðið til umræðu undanfarna daga.

Tekjur ríkissjóðs af veiðigjöldum munu þar af leiðandi ráðast mjög af afkomu í sjávarútvegi þar sem hún getur verið mjög breytileg eftir aðstæðum, ekki síst eftir þróun raungengis. Grunntekjurnar af almenna veiðigjaldinu eru áætlaðar um 4 milljarðar kr. á ári en tekjur af sérstaka gjaldinu verða háðar afkomu. Eins og áður var getið hefur hagnaður sjávarútvegs almennt verið mjög góður undanfarinn áratug og hefur hann gefið af sér miklar tekjur. Hefði gjaldtaka í samræmi við ákvæði frumvarpsins verið við lýði á þessu tímabili hefðu tekjurnar á verðlagi ársins 2010 orðið um 12,5 milljarðar kr. á ári að meðaltali, farið upp í um 24 milljarða kr. á þeim árum sem afkoma sjávarútvegsins var allra best, tekjur greinarinnar yfir 200 milljarðar kr. og EBITDA 60–70 milljarðar kr. á ári. Tekjur af sérstökum veiðigjöldum munu hins vegar sveiflast mjög mikið og ráðast af gengi eins og áður var sagt og auk þess að sjálfsögðu af afurðaverði á mörkuðum og aflabrögðum. Lengst af því tímabili sem hér um ræðir, þessi tíu ár aftur í tímann, hefði þannig til dæmis uppsjávarafli ekki skilað neinum tekjum í formi sérstaks veiðigjalds. Í fimm ár af síðustu tíu hefðu engar greiðslur komið úr þeim hluta útgerðarinnar vegna þess að framlegðin hefði ekki boðið upp á það.

Botnfiskveiðar hefðu öll árin skilað einhverjum tekjum umfram almenna veiðigjaldið nema árið 2004 þegar hvorug þessi megingrein sjávarútvegsins hefði greitt veiðigjald. Það sýnir hversu næmt gjaldið er fyrir raunverulega afkomu greinarinnar.

Að sjálfsögðu er tekjustofn af þessu tagi ekki óskabarn fjármálaráðherra hvers tíma því að eðli málsins samkvæmt getur hann verið mjög breytilegur en það má færa fyrir því efnahagsleg rök að hann leiti ákveðins jafnvægis, m.a. í gegnum það að þegar gengi krónunnar styrkist má búast við að aðrir tekjustofnar ríkisins styrkist samhliða sem dregur úr tekjum af sérstöku veiðigjaldi.

Um þetta allt saman er ítarlega fjallað í rækilegri greinargerð með frumvarpinu og kostnaðarumsögn með því.

Þá er rétt að geta þess og um það er fjallað í greinargerð með frumvarpinu að í tengslum við þetta er til skoðunar að gera ýmsar frekari breytingar á skattalögum, ekki síst tekjuskattslögum, og þá þannig til dæmis að keyptar aflaheimildir samkvæmt samningum megi færa niður í skattskilum með einhverjum hætti og jafnframt breytingar á þeim ákvæðum tekjuskattslaga sem snerta niðurfærslu áður keyptra veiðiheimilda. Mikilvægt er að þessi þáttur málsins verði skoðaður samhliða og að í síðasta lagi á haustmánuðum komi fram frumvarp sem tekur á og leiðir til lykta þessa þætti málsins. Hvort tveggja mun leiða til lækkunar á tekjusköttum útgerðarfyrirtækja þar sem þau fá þá frádráttarheimildir umfram þá lækkun sem álagning veiðigjalda mun sjálfkrafa hafa í för með sér.

Rétt er að hafa í huga að þar munu ívilnandi ákvæði koma fyrirtækjum til góða, ekki síst þeim sem hafa á undanförnum árum skuldsett sig vegna kaupa á veiðiheimildum.

Að öðru leyti, frú forseti, læt ég nægja að vísa í mjög ítarlegar athugasemdir sem fylgja frumvarpinu og fylgiskjöl með því sem meðal annars hafa að geyma kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins. Ég held því fram að grundvallaraðferðafræðin sem hér er lögð til nái mjög vel utan um það meginmarkmið sem frumvarpið byggir á, nálgast að horfa til hinnar sérstöku auðlindarentu og fanga hana á þeim árum sem hún er mikil í greininni en tryggja jafnframt og alltaf góða ávöxtun allra fjármuna sem bundnir eru í greininni og hlutdeild í rentuhagnaðinum sjálfum eins og hér er lagt til. Þótt ýmsum þyki það kannski ekki mikið, 30%, er það engu að síður þannig að í hinum þrönga skilningi þessarar skilgreiningar deilir þjóðin og greinin með sér þeim hluta.

Að sjálfsögðu má endalaust rökræða hér um viðmið og fjárhæðir. Það hefur ekki farið fram hjá mér frekar en öðrum að ýmsum þykir bratt í farið með þeim forsendum sem hér eru lagðar upp. Ég held að það sé mikilvægt að menn talist þar við með rökum og greini raunveruleg áhrif en veifi ekki órökstuddum og mjög háum tölum. Að mínu mati er til dæmis fráleitt að leggja málin þannig upp að hér sé um að ræða 70% brúttóskattlagningu á öllum hagnaði í sjávarútvegi. Því fer fjarri þegar hinar eiginlegu forsendur frumvarpsins eru skoðaðar og það virt að það tryggir í fyrsta lagi ríflegri ávöxtun eigin fjár en almennt er notað sem viðmið í svokölluðum árgreiðsluaðferðum. Þannig miðar Hagstofan almennt við 6% í þeim útreikningum en hér eru lögð til 8% fyrir veiðar og 10% fyrir vinnslu og svo með vísan til þeirra frádráttarliða sem áður voru nefndir.

Ég er að sjálfsögðu móttækilegur fyrir því að um þetta sé fjallað og þetta greint. Ég vonast til þess að þær þingnefndir sem fá þessi mál bæði til umfjöllunar geri það, auk þess sem þau verða að sjálfsögðu send út til umsagnar og öllum gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum að. Ráðuneytið mun í samstarfi við þá aðila sem það hefur átt samstarf við um þetta efni, sérfræðinga innan skattkerfisins og í fjármálaráðuneytinu, halda samhliða áfram frekari greiningum á þessu. Markmiðið er að komast málefnalega að sem best undirbyggðri niðurstöðu þegar menn tygja sig í afgreiðslu á málunum.

Hér þarf að samþætta nokkur markmið sem menn geta fljótt á litið sagt að stangist á en gera það þó ekki að mínu mati þegar betur er að gáð. Annars vegar er meginmarkmiðið um að þjóðin eigi tilkall til viðbótarrentu eða sérstakrar auðlindarentu sem sprettur af því að menn fá aðgang að og leyfi til að nýta þessa verðmætu auðlind sem stjórnvöld gæta og passa upp á og sjá um að sé til staðar, ekki síst með skynsamlegri fiskveiðistjórn. Þjóðin er eigandi auðlindarinnar. Hins vegar er að sjálfsögðu jafnmikilvægt að tryggja greininni góð og stöðug rekstrarskilyrði og nægjanlegan hvata til þess að menn vilji binda fé sitt í rekstri í sjávarútvegi, byggja hann upp, fjárfesta í honum og þróa hann.

Þessi markmið er skylt að sætta og þau fara saman þegar til langs tíma er litið, þ.e. að auðlindarinnar sé gætt, það sé passað upp á að hún haldi verðmæti sínu og að á hana sé ekki gengið sem er aftur trygging fyrir því að það sé ábatasamt að starfa innan þessarar greinar.

Þegar upp er staðið eiga allir sameiginlega hagsmuni í því að finna farsæla niðurstöðu í þessu máli eins og fleirum en auðvitað geta menn líka togað þetta í allar áttir og hamast með stóryrðum um viðfangsefnið.

Ég er móttækilegur fyrir öllum málefnalegum rökum og sjónarmiðum og vil taka þau til greina, vil gjarna eiga samstarf við greinina um að skoða allt vel, m.a. á grundvelli upplýsinga frá greininni sjálfri, þ.e. úr bókhaldi einstakra fyrirtækja sem er erfitt fyrir stjórnvöld að nálgast nema þá í samstarfi við slíka aðila. Á hinn bóginn er ég ekki sérstaklega móttækilegur fyrir stóryrðum eða hræðsluáróðri og hrekk skammt undan slíku.

Virðulegur forseti. Ég legg svo til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til hv. atvinnuveganefndar en þó þannig að atvinnuveganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd eigi með sér náið samráð um þetta mál þar sem það er að sjálfsögðu sumpart á verksviði beggja nefndanna. Af þingtæknilegum ástæðum er væntanlega heppilegra að að formi til sé málinu vísað til einnar nefndar, m.a. til að tryggja einfaldara umsagnarferli og gestamóttöku. Ég legg áherslu á að efnahags- og viðskiptanefnd fari vel yfir það mál sem hér er undir, þ.e. veiðigjaldamálið, eðli málsins samkvæmt þar sem það á margt skylt með viðfangsefnum á sviði skattaréttarins. Það er að sjálfsögðu nauðsynlegt að vinna málin samhliða og saman og að þau haldist sem mest í hendur. Þó ber að geta þess að það er ekki rétt að leggja þröngan skattalegan skilning í viðfangsefnið sem hér er undir, þ.e. auðlindagjaldtöku eða heimtu auðlindarentu þegar um sameiginlega þjóðarauðlind er að ræða. Það er í raun viðfangsefni sem er hvort tveggja á sviði skattaréttarins ef svo má að orði komast en tengist líka auðlindanálguninni og grunnhugsuninni sem þar er undir þannig að í þeim skilningi mætti vel segja að umhverfis- og samgöngunefnd gæti sömuleiðis látið sig málið varða.

Ég treysti því að ágætir nefndaformenn leysi greiðlega úr þessu sín á milli og eigi gott samstarf við úrvinnsluna.