140. löggjafarþing — 81. fundur,  30. mars 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[11:03]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ósammála því að vinna þurfi þetta frumvarp frá grunni. Ég tel þvert á móti að sú mikla vinna sem hér hefur verið lögð í að skilgreina sjálft grunnviðfangsefnið og móta aðferðafræðina sem best er til þess fallin að nálgast það standist algjörlega prófið. Deilurnar sem mér heyrast vera eru fyrst og fremst um viðmiðunarmörk og fjárhæðir innan þessarar aðferðar. Það er að sjálfsögðu hægt að rökræða.

Ég hef ekki heyrt menn koma fram með sterk málefnaleg rök sem gagnrýna í sjálfu sér grundvallaraðferðafræðina sem hér er lögð til. Að sjálfsögðu er byggt á mikilli vinnu og mikilli greiningu sem hefur átt sér stað á undanförnum missirum, jafnvel árum. Eins og kom fram í framsögu minni er þráðurinn rakinn (Forseti hringir.) allt aftur til og aftur fyrir störf auðlindanefndarinnar um síðustu aldamót.