140. löggjafarþing — 81. fundur,  30. mars 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[11:04]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Því er alveg ósvarað hvers vegna ekki var leitað víðtækara samráðs við undirbúning málsins. Ég ætla hér að svara ákalli um að koma með raunverulega gagnrýni á forsendurnar í málinu. Hún er þessi:

Það að áætla áhættufjármagni sömu ávöxtun og gert er í opinberum framkvæmdum, það er það sem mér sýnist vera gert hér, að menn megi ekki hafa meiri arðsemi af áhættufé en ríkið gerir að jafnaði til sinna fjárfestinga, eru grundvallarmistök í þessu máli. Það lýsir grundvallarmisskilningi á eðli fjármagnsins og líkunum á því að menn séu tilbúnir til að hætta einhverju í áhættusömum rekstri eins og sjávarútvegurinn hefur verið í gegnum tíðina. Það er ekki hægt að taka viðmiðanir um ávöxtun sem notaðar eru af hinu opinbera, t.d. dæmis í vegaframkvæmdum og öðru slíku, og jafna því á starfsemi eins og sjávarútveginn. Þess vegna tel ég að það sé stórkostlega vanmetið í þessu máli hvað það kostar að leggja fram áhættufé, hvaða arðsemiskröfu hluthafarnir gera í greininni og hvaða afskriftir og fjárfestingu þarf að ráðast í (Forseti hringir.) til þess að viðhalda starfseminni.