140. löggjafarþing — 81. fundur,  30. mars 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[11:10]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einmitt þetta, hvað er viðbótarrenta? Hvenær verður viðbótarrenta til? Það kallar á að menn séu sammála um einhverja túlkun sem slíka. Ég hefði haldið að hægt væri að ná sömu markmiðum, án þess að gera lítið úr þeirri hugsun sem er þarna að baki, með því að taka upp sérstakt skattþrep eða fara í gegnum skattkerfið til að ná þeim tekjum sem hugsað er í frumvarpinu. Svo er að sjálfsögðu eftir að ræða það hversu hátt það á að vera allt saman. Ég held að ástæða sé til að ræða og skoða þetta, því að ég held að við munum takast mikið á um túlkanir og í rauninni hvað hverjum og einum finnst vera eðlilegt eða viðunandi.

Annað sem ég sakna og langar að leita svara við hvort hafi verið unnið eru útreikningar á einstakar útgerðir, útreikningar á einstök svæði eða byggðarlög, og þá er ég að tala um áhrifin og útgerðarflokka. Því að þau viðbrögð sem við höfum fengið nú þegar, og ég vitna í mitt kjördæmi, Norðvesturkjördæmi, (Forseti hringir.) eru allar í rauninni á einn veg. Það verður bara að segjast alveg eins og er.