140. löggjafarþing — 81. fundur,  30. mars 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[11:11]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni og þá erum við komin að kjarna málsins: Hvað er eðlileg eða nauðsynleg ávöxtun? Hv. þm. Bjarni Benediktsson nefndi það sama; hvað þarf til til að menn séu viljugir til að binda fjármuni í þessari grein þegar um áhættusama starfsemi er að ræða? Það eru auðvitað meginrökin fyrir því að miða við mun hærri ávöxtunarkröfu en almennt er gert í ársreikningsaðferðum. Ef við berum þetta til dæmis saman við orkugeirann og þau tekjumörk sem Orkustofnun setur fyrirtækjum þar, þá eru þau miklu stífari en þetta. Fyrir því eru alveg rök. Ég man ekki hvort það er 5–6% ávöxtun eða eitthvað slíkt sem leyfð er þar þegar tekjumörkin eru sett. Það á augljóslega ekki við hér og þau þurfa að vera rýmri. Því er ég sammála, en nákvæmlega hvar þau eiga að liggja getum við rætt.

Varðandi áhrif á einstakar útgerðir, já, þá hefur það verið skoðað eftir því sem hægt er miðað við gögn Hagstofunnar. Það eru meðal annars rökin fyrir því að hlífa minni aðilunum af því að þau gögn sýna að þar er minni greiðslugeta til staðar og að aðskilja uppsjávarveiðar og bolfiskveiðar. (Forseti hringir.) Ég skal fúslega viðurkenna að ef gögn Hagstofunnar byðu upp á það væri æskilegt að geta aðgreint þetta enn frekar. Um það er fjallað í greinargerðinni.