140. löggjafarþing — 81. fundur,  30. mars 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[11:13]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Í fyrsta lagi vil ég upplýsa hv. þingmann um að ég átti ágæta ferð til Kanada. Ég skal gera honum betur grein fyrir því svona undir fjögur. Það gladdi mig óendanlega að fá þær fréttir þangað að mín væri svona sárt saknað hérna heima. Ég hef bara í annan tíma ekki verið glaðari en að frétta af því að menn væru harmi slegnir yfir fjarveru minni hér á þingi.

Varðandi nálgun hv. þingmanns vil ég segja að sínum augum lítur hver á silfrið. Það sem ég var í framsögu minni að reyna að fara yfir er að við erum að leysa þetta viðfangsefni sem snýr að annars vegar verðmætri auðlind, sameiginlegri auðlind í eigu þjóðarinnar sem meðal annars verður verðmæt vegna þess að stjórnvöld tryggja sjálfbæra nýtingu hennar, stýra aðgangi að henni o.s.frv. og hins vegar að sjálfsögðu að þeim sjónarmiðum sem eru mikilvæg að þeir sem starfa í greininni búi við góða afkomu og góð kjör og það sé áhugavert og hvetjandi að vera þar. Hvar liggja þau mörk? Hvernig setjum við þau á? Það er augljóslega viðfangsefnið hér eins og það er alls staðar annars staðar í öllu atvinnulífi þar sem við að sjálfsögðu erum með skattlagningu og ætlumst til þess að einhverjum mæli leggi menn sitt af mörkum til samfélagsins, jafnvel þótt þeir séu ekki að nýta sameiginlega auðlind. Er það ekki?

Við höfum oft átt viðræður um það, ég og hv. Pétur H. Blöndal, og ekki alltaf verið alveg nákvæmlega sammála.