140. löggjafarþing — 81. fundur,  30. mars 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[11:39]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrir það fyrsta þakka Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, fyrir ræðu hans þar sem hann setur fram gagnrýni á þetta frumvarp ásamt því sem talað var um í gær. En engu að síður er í ræðu hv. þingmanns, eins og í ræðu hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í gær, formanns Framsóknarflokksins, slegið á tóna sem ég vil kalla sáttatóna. Það sýnir að í þessum frumvörpum eins og þau eru sett fram, er settur fram grundvöllur til að ná sem víðtækastri sátt um þessa mikilvægu atvinnugrein. Eins og hv. þingmaður sagði áðan þá hóf Sjálfstæðisflokkurinn gjaldtöku með veiðileyfagjaldi, hóf þá vinnu, á sama hátt og Sjálfstæðisflokkurinn hóf vinnu með ýmislegt í kvótakerfinu, þar með talið ýmsa potta, línuívilnun sem hefur skilað ágætu, byggðapottum o.s.frv.

Þess vegna er spurningin bara hvernig þetta er reiknað út, hver talan er. Hér er álit frá fjórum hagfræðingum frá fjórum stofnunum. Við sjáum að þeir eru ekkert allir sammála og nota ekki allir sama grunninn. Þess vegna verður mikilvægasta verkefnið sem menn munu fara í strax í atvinnuveganefnd að komast að niðurstöðu um hver grunnurinn sé. Svo skulum við tala um hver prósentan á að vera.

En erindi mitt hingað er eingöngu að spyrja formann Sjálfstæðisflokksins að einu sem mér finnst hafa komið fram, vegna þess að hér er byggt svolítið á tillögu sáttanefndarinnar sem Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, LÍÚ og fleiri skrifuðu upp á. Er formaður Sjálfstæðisflokksins ekki á því að við getum náð sátt um veiðileyfagjald í greininni til langs tíma? Og er hann ekki að boða það sem hann hefur sagt, að Sjálfstæðisflokkurinn sé hlynntur hækkun veiðileyfagjalds?