140. löggjafarþing — 81. fundur,  30. mars 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[11:43]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan er mjög mikilvægt að hlusta með athygli á hvað formenn stjórnarandstöðuflokkanna segja um þau frumvörp sem hér liggja frammi. Ég ítreka það enn einu sinni og segi: Mér finnst að hér hafi verið sögð orð sem sýna það sem er alveg hárrétt, að okkar bíður það verkefni að vinna að sem mestri sátt um þetta deilumál og ljúka því helst í eitt skipti fyrir öll. Það er kannski fullstór ósk að sáttin verði við alla þjóðina, en við sem stærstan hluta hennar.

Hv. þingmaður nefndi skerðingar og potta en við skulum hætta að tala um potta af því að í frumvarpinu er talað um flokka; flokk 1 og flokk 2. Ég held að flokkur sé betra nafn. Í tillögum sáttanefndarinnar voru nefnilega líka hugmyndir um svona flokk til annarra veiða en í aflahlutdeild og hér er verið að stíga það skref. Svo getum við deilt um hvort potturinn sé of stór eða lítill, það er annar handleggur.

En aðalatriðið finnst mér vera að meginumræðan um þessi tvö frumvörp og gagnrýnin á þau hefur snúist um hugsanlegt veiðileyfagjald og hvernig eigi að reikna það út. Mér finnst verst að mjög er á floti hver talan er. Menn hafa nefnt 25 milljarða. Það er brúttótalan. Þá á eftir að draga frá lækkun vegna þess að ekki borga allir veiðileyfagjald. Þetta hefur áhrif á lækkun tekjuskatts. Þannig að kannski er nettótalan 13 eða 15 milljarðar. Það bíður okkar að fara yfir þetta.

Ég vil bara ítreka og þakka formanni Sjálfstæðisflokksins fyrir það sem hann segir um hækkun veiðileyfagjalds, ég tel það mjög mikilvægt. Með öðrum orðum, virðulegi forseti, ég er algjörlega sammála því sem hv. þingmaður sagði í andsvari við forsætisráðherra í gær í óundirbúnum fyrirspurnum þar sem hann sagði, með leyfi forseta:

„Við höfum stutt hugmyndir um að hækka veiðigjaldið þannig að tryggt væri að fyrirtækin borguðu sanngjarnan hlut.“

Það verður verkefni okkar vegna þess að enginn ætlar sér að setja einhverja atvinnustarfsemi á höfuðið með skattheimtu eða eitthvað slíkt. Þetta er verkefnið. En grunnurinn er algjörlega til staðar til að vinna að sátt um þetta mál, líkt og forsætisráðherra sagði þegar frumvarpið var kynnt í Sjóminjasafninu í Reykjavík.