140. löggjafarþing — 81. fundur,  30. mars 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[12:10]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég biðst afsökunar á að hafa ekki verið hér, ég hélt að þingmaðurinn væri að fara í ræðu, bið þingmanninn líka afsökunar á því.

Í takt við, eins og hv. þingmaður orðaði sína spurningu, leyfi ég mér að taka „nákvæmlega“ frá, en það sem hér er lagt til er í takt við það sem framsóknarmenn samþykktu á sínu flokksþingi.

Ég ætla að útskýra aðeins betur í hverju þessi taktur felst. Hann er fyrst og fremst sá að stóra samhengið sem hér er verið að boða er mjög líkt því sem við samþykktum á okkar flokksþingi, þ.e. að um væri að ræða tvo potta, eða hvað menn kalla þetta, og væri byggt á aflahlutdeild og aflamarkskerfi. Innan þessara flokka væru nýtingarsamningar. Við tölum um samninga en það er talað um leyfi hér. Mér finnst vanta skilgreiningu á muninum þar á. Við tölum um að í potti 2 eða flokki 2 séu bætur, byggðakvóti í línuívilnun o.s.frv. Við tölum ekki um leigupott í okkar samþykkt, svo því sé haldið til haga. En þetta er mjög líkt. Stóra myndin er mjög lík, því er ekki að neita. Ég held að það sé hægt að ná býsna góðri lendingu með stóru myndina en svo verður vandamál þegar við förum að raða inn í myndina.

Því er ekki að leyna að í sáttanefndinni stóru svokölluðu tókst tiltölulega fljótt að ná niðurstöðu um þessa stóru mynd, vil ég segja. Hún náðist eftir að menn voru til dæmis orðnir sammála um að það þyrfti að kveða skýrar á um auðlindaákvæðið, hver ætti þessa auðlind. Til að það sé hægt þarf að skýra í hverju þjóðareign felist o.s.frv.