140. löggjafarþing — 81. fundur,  30. mars 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[12:17]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Saga hæstv. ríkisstjórnar í breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu og veikburða tilraunum sínum til að standa við þau stóru orð sem sögð voru fyrir kosningar er orðin hálfgerð hörmungarsaga. Rifja má upp að niðurstaða úttektar hjá Háskólanum á Akureyri sýndi fram á að ef sú fyrningarleið sem hér var boðuð hefði verið farin hefðu um 48% fyrirtækja í sjávarútvegi farið lóðrétt á hausinn. Hæstv. forsætisráðherra hefur heldur ekki boðið upp á málamiðlanir í þessu, hún hefur haldið því fram að enginn væri að bakka í því að halda til streitu svokallaðri fyrningarleið en hefur þó eftir alla þessa málsmeðferð þurft að draga mikið í land.

Þegar þetta nýja frumvarp var kynnt af hálfu hæstv. forsætisráðherra og hæstv. sjávarútvegsráðherra var talað um að það væri grundvöllur að mikilli og góðri sátt um fiskveiðistjórnina. Það heyrðum við líka í fyrra þegar hæstv. ráðherrar kynntu það sjávarútvegsfrumvarp sem þá var lagt fram. Öll erum við minnug afdrifa þess og hefur sennilega sjaldan eða aldrei náðst eins mikil samstaða hjá hagsmunaaðilum í sjávarútvegi í gagnrýni sinni. Þess var ekki langt að bíða að ábyrgðarmenn frumvarpsins sem áður lofuðu það legðu á harðaflótta í málflutningi sínum og má segja að toppinn í ummælum um það frumvarp eigi hæstv. utanríkisráðherra þegar hann kallaði það bílslys.

Það vakti athygli þegar hlustað var á kynningu á nýja frumvarpinu að ekki var farið mörgum orðum um að þetta væri til að bæta rekstrarafkomuna eða stuðla að hagræðingu eða hagkvæmni í greininni. Það er auðvitað áhyggjuefni ef staðan er sú að það á að hverfa frá því en það segir reyndar í markmiðum annars frumvarpsins, sem við ræddum hér í fyrradag, að það eigi að reyna að hámarka þetta en innihaldið er kannski ekki alveg í samræmi við það.

Kallað er eftir því að við reynum að slá sáttatón í þessum málum og ég tek undir það en það hefur auðvitað ekki verið þannig að forustumenn ríkisstjórnarinnar og alveg sérstaklega hæstv. forsætisráðherra væru að slá sáttatón í þessu máli. Það hefur verið ótrúlegt að hlusta á uppnefni og dónaskap hæstv. forsætisráðherra þegar hún talar til fólks í sjávarútvegi, fólks sem í sjálfu sér hefur ekkert gert annað af sér en að fara eftir þeim leikreglum sem hún sjálf hefur átt stóran þátt í að setja. (Gripið fram í: Og borga skattana.) Ekki er hægt annað en taka undir orð hv. þm. Jóns Bjarnasonar, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, þegar hann sagði hér um hæstv. forsætisráðherra í gær að hún veldi ófrið þegar friður væri í boði. Eða er líklegt að orðræða eins og tal um íhaldsöfl, forréttindastéttir, valdaklíku íhaldsafla, sægreifa, hagsmunagæsluöfl, gíslatöku, grímulausa valdaklíku og óskammfeilnar þvingunaraðgerðir, sem hæstv. forsætisráðherra hefur viðhaft, slái sáttatón í þessu mikilvæga máli? Það er í raun alveg ótrúlegt hve hún virðist vera blinduð af óskiljanlegu hatri og reiði í þessu máli.

Málið hefur verið á forræði hæstv. forsætisráðherra og hæstv. sjávarútvegsráðherra frá því í nóvember. Í desember sagði hæstv. sjávarútvegsráðherra að það tæki um þrjár vikur fyrir hann að kippa þessu í liðinn og nú eru liðnir þrír, fjórir mánuðir. Það er margt að athuga við þetta frumvarp og kannski sérstaklega hve áhrif þess hafa verið lítið skoðuð. Ljóst er að stærstu einstöku áhrifin í þessum frumvörpum eru af veiðigjaldinu sem er boðað í því frumvarpi sem við ræðum hér. Í umræðu í fyrradag kom fram hjá hv. þm. Helga Hjörvari að þetta mundi koma mjög illa við skuldsett fyrirtæki og það hefur komið fram og kemur fram í greinargerð Daða Más Kristóferssonar um þetta frumvarp. Maður veltir því þá fyrir sér þegar talað er um nauðsyn þess að efla nýliðun í greininni, hvetja ungt fólk til að fara af stað í sjávarútvegi — sem að mínu mati er reyndar ekkert erfiðara í dag en í hvaða öðrum rekstri sem er, það er ekkert erfiðara að fjárfesta í sjávarútvegi en í öðrum rekstri, það sem menn þurfa er áræði, dugnaður og aðgangur að einhverju fjármagni hvernig sem það kemur — að á sama tíma og þetta er eitt af markmiðunum og mikið um það talað er verið að höggva í þann knérunn vegna þess að þeir aðilar sem verða skuldsettastir og eru skuldsettastir í greininni í dag eru þeir sem hafa verið að fjárfesta og það eru gjarnan nýliðarnir.

Ég þekki persónulega dæmi úr kjördæmi hæstv. sjávarútvegsráðherra og sveitarfélagi hv. þm. Björns Vals Gíslasonar þar sem ungt fólk hefur verið að hasla sér völl í sjávarútvegi og hefur verið að gera það síðastliðin sex, sjö ár, hefur lagt í miklar fjárfestingar, lagt allt undir, unnið hörðum höndum án þess að taka mikil laun út úr fyrirtækinu, takmarka það mjög mikið. Þetta hefur gengið ágætlega, því gengur ágætlega að byggja sig upp. Þetta fyrirtæki var að fjárfesta núna síðast á þessu ári í frekari veiðiheimildum og einum litlum viðbótarbát. Hvernig fer svona frumvarp með þetta fólk? Er markmiðið að slátra þessu fólki af því það nær ekki einhverri meðalstöðu í þessum rekstri?

Á sama tíma og kallað er eftir aukinni fjárfestingu í landinu, og við vitum að það er mikil uppsöfnuð þörf í sjávarútvegi fyrir aukinni fjárfestingu, er verið að setja á þetta veiðileyfagjald og það útfært með þeim hætti að það setur greinina í mikið uppnám. — Ég ætla að ná hér, virðulegi forseti, í pappíra sem ég gleymdi. — Það er áhugavert í því samhengi að rifja upp ummæli hæstv. sjávarútvegsráðherra sem hann viðhafði í ræðu sinni fyrir nokkrum árum um veiðileyfagjaldið og spyrja hann að því hvað hafi breyst. Það er ekkert nýtt að upplifa það að hæstv. sjávarútvegsráðherra breyti um skoðun í málum og kúvendi alveg í sínum skoðunum. Fyrir nokkrum árum sagi hann í ræðu norður á Akureyri að hann væri þeirrar skoðunar að veiðileyfagjald sé óskynsamlegur skattstofn og óréttlátur, að veiðileyfagjald sé sérstakur skattur á grein sem sé í brýnni þörf fyrir fjárfestingu og uppbyggingu inn í framtíðina, að veiðileyfagjaldið yrði til að hægja á greiðslum skulda fyrirtækja og þetta væri nánast eina von landsbyggðarinnar þar sem uppbygging í sjávarútvegi væri henni svo mikilvæg.

Hæstv. ráðherra talaði algjörlega gegn því sem hann er að leggja fram núna. Hann sagði að málið væri ekki flóknara en það í hans að huga að við ættum að hætta því rugli að vera á þessari vegferð og hann bendir á að það séu aðrar leiðir til í gjaldtöku í sjávarútvegi ef menn vilja innheimta einhvers konar auðlindagjald, sem við getum verið sammála um, og það liggi í gegnum tekjuskattskerfið.

Sama staða virðist vera að koma upp og í fyrra, þ.e. hin mikla samstaða um gagnrýni, og í fyrstu tölum sem við erum að fá núna, fyrstu skoðanir benda til allt annarrar niðurstöðu en þeirra takmörkuðu áhrifa sem hæstv. ráðherra talar hér fyrir.

Ég vona að hér sé um einhvern allsherjarmisskilning að ræða. Ég vona að menn hafi hreinlega ekki reiknað dæmið nægilega vel á hvorum staðnum sem er og ég á von á að það sé frekar í ráðuneytinu að gefinni reynslu. Enda hefur það komið fram hér hjá hæstv. ráðherra að menn féllu enn og aftur í pytt samráðsleysis sem leiðir til þessarar óvissu, ráðherra viðurkennir að skort hafi upplýsingar frá hagsmunaaðilum til að fullgera dæmið. Hann sagði að það þyrfti að ná upplýsingum úr bókhaldi fyrirtækjanna sem ekki hefðu legið fyrir.

Nú þarf að svara þessum áleitnu spurningum: Af hverju er boðið upp á þennan farveg ósátta í málinu? Af hverju var ekki hægt að hafa nánara samráð í ferlinu, tíminn var nægur, svo þessar tölur lægju á borðinu þannig að menn væru að leggja fram eitthvað sem væri grundvallað á öllum þeim upplýsingum sem þarf til að grundvalla framlagningu svona mikilvægs máls?

Við munum auðvitað taka þetta fyrir hjá atvinnuveganefnd og fara vel yfir málið og fara í þá vinnu sem nú þarf að fara í með samráðsaðilum, með hagsmunaaðilum, í samráði við hagsmunaaðila. Sú hugmynd sem ég hef heyrt fleygt um að stofna til einhvers konar samráðshóps aðila í þinginu, með aðild þingsins og hagsmunaaðila í greininni og fulltrúa sveitarfélaganna í landinu, er leið sem mér líst mjög vel á. Að í sameiningu setjist menn yfir það að vinna eftir niðurstöðum sáttanefndarinnar í útfærslu á þessu máli og reyna að finna hvernig við getum hámarkað arð í greininni og þar með hámarkað arð þjóðarinnar af þessari miklu auðlind.

Menn komu inn á margt í umfjöllun um fiskveiðistjórnarfrumvarpið sem rætt var hér á miðvikudaginn og ég fagna því að hæstv. sjávarútvegsráðherra er mættur hér til leiks í dag til að ræða þessi mál við okkur. Ég tel mikilvægt að hann sé kominn úr þeirri ferð sem hann fór með hæstv. efnahagsráðherra til Kanada og (Gripið fram í: Kom þeim vel saman?) þeim hefur vonandi komið vel saman í ferðinni. Þess vegna langar mig til að minnast aðeins á þá þætti sem snúa ekki beint að þessum þætti málsins, þ.e. veiðileyfagjaldinu, heldur öðrum líka. Þar vil ég til dæmis koma inn á byggðaþátt málsins. Við erum öll sammála um, hvar í flokki sem við stöndum, að við viljum efla byggðir landsins. Við viljum meðal annars nýta sjávarútveginn og önnur atvinnutækifæri sem við munum byggja upp á næstu árum til að efla byggðir landsins og snúa við þeirri byggðaþróun sem við höfum horft upp á á síðustu árum.

Þetta er mér persónulega mjög mikilvægt mál. Það er því dapurlegt að lesa í greinargerð Daða Más Kristóferssonar að það sé mjög ólíklegt að byggðaaðgerðir þessa frumvarps nái markmiðum sínum og maður veltir því þá fyrir sér enn og aftur með þessar umsagnir í farteskinu: Hvers vegna var ekki farið í að greina þetta og reyna að finna nánari lausn á þessu?

Varað er mjög við því í frumvarpi um breytingu á fiskveiðistjórnarkerfinu að draga svo úr þeim byggðatengdu aðgerðum sem við höfum verið með, t.d. í gegnum byggðapotta og aðrar ívilnanir. Það er gagnrýnt líka að mjög illa sé farið með aflaheimildir í strandveiðikerfinu og nær væri að nýta það með öðrum hætti.

(Forseti (ÁI): Forseti vill vekja athygli hv. þingmanns á því að tölvukerfið liggur niðri og tímamæling einnig en hv. þingmaður á svona tvær mínútur eftir af tíma sínum.)

Þakka þér fyrir forseti, ég fer þá að ljúka máli mínu. Það er varað mjög við þessu og það er mjög mikilvægt að við sköpum ekki óvissuástand í þessari breytingu sem er hugmyndin að fara í sem gæti komið sér illa fyrir byggðir landsins sem hafa treyst á það kerfi sem við erum með í dag. Ég vil nefna til dæmis í því sambandi kvótaþing. Ég ætla ekki að segja að það sé algild regla en það er samt sem áður í mörgum tilfellum þannig að þegar menn hafa tækifæri til að láta frá sér aflahlutdeildir gera þeir það gjarnan innan byggðarlagsins. Þá eru menn að hjálpa hver öðrum innan byggðarlaga eða byggðasvæða og stuðla að aukinni atvinnustarfsemi á svæðinu þannig að aflahlutdeildirnar haldast innan byggða eða innan byggðasvæða en ef við erum komin með þetta allt inn á kvótaþing ræður það ekki lengur ferð. Þetta er atriði sem ég held að þurfi að skoða mjög vel.

Ég vil að lokum segja, virðulegi forseti, að sá sáttatónn sem sleginn hefur verið hér af hv. formanni atvinnuveganefndar, Kristjáni Möller, og þeim sem hér hafa talað er góður. Það er alveg ljóst að þetta frumvarp gengur að okkar mati allt of langt, við erum búnir að fá til okkar dæmi, sorgleg dæmi um afleiðingar þess nú þegar. Ég heyrði í gær í forsvarsmanni útgerðarfyrirtækis úti á landi sem ætlaði að fara í miklar viðhaldsaðgerðir í sumar í sínu fyrirtæki en hann er búinn að boða til fundar með þeim sem þau verkefni áttu að vinna til að slá það af. Hann hafði þau orð uppi að ekki væri hægt að taka neinar ákvarðanir á meðan þessi óvissa héngi yfir, það væri ekki hægt fyrr en búið væri að ganga frá einhverjum samningi við stjórnvöld um hvernig þessu yrði hagað til lengri framtíðar.

Við verðum að fá stöðugleika í þessa mikilvægu grein. Við verðum að geta horft til lengri tíma og það er alveg ljóst að þau frumvörp sem við höfum hér til umfjöllunar ná ekki því markmiði.