140. löggjafarþing — 81. fundur,  30. mars 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[12:46]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir það sem hann setur hér fram. Í upphafi málsins gat hann um það að í 28 ár, að mig minnir ef ég reikna fljótt út, hafi verið ósætti með sjávarútveginn og sjávarútvegsstefnuna sem kemur til af eignarhaldi og framsali. Ég hygg að þetta sé mjög vel orðað hjá hv. þingmanni. Þess vegna hef ég áður sagt, bæði við þessa umræðu og áður, að það er mikilvægt að þessu deilumáli linni hjá þjóðinni og að við sköpum sem mesta sátt um það. Ég spyr þingmanninn hvort við getum ekki verið sammála um það.

Annað atriði sem ég vildi nefna og kom fram hjá formanni Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Bjarna Benediktssyni, er að veiðileyfagjaldið hafi fyrst verið sett upp í tíð Sjálfstæðisflokksins. Það hófst sem sagt í tíð Sjálfstæðisflokksins og síðan hefur það verið aukið. Ég kann ekki alveg að reikna út í fljótheitum hvað það er miðað við raunverð. Ég er viss um að hv. þingmaður hefur reiknað það út.

Ég ætla bara að hafa eitt andsvar, virðulegur forseti, og síðasta spurning mín er hvort hann telji það ekki til bóta í þessu frumvarpi hérna að svokallað veiðileyfagjald taki sveiflum eftir afkomu. Hv. þingmaður ræddi meðal annars um loðnu sem sveiflast miklu meira en botnfiskstegundirnar eins og við vitum. Í fylgiskjali með þessu frumvarpi er sýnt að á tíu ára tímabili hafi í sex ár sérstakt gjald á uppsjávarfiski ekki verið króna. Miðað við tíu ára tímabil væri það brúttó 1,1 milljarður að meðaltali, þá er til dæmis ekki búið að taka tillit til afsláttar vegna þess sem hann ræddi hér áðan eða að tekjuskattur lækkar vegna hækkunar á veiðileyfagjaldi.

Ég spyr hv. þingmann: Er ekki gott við þetta frumvarp að gjaldið skuli taka sveiflum eftir afkomu í greininni?