140. löggjafarþing — 81. fundur,  30. mars 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[14:19]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur orðið um þetta mál. Hún var að mínu mati málefnaleg og gagnleg og ýmis verðug sjónarmið komu fram sem er gott að hafa í huga í framhaldinu. Ég hef að hluta til svarað þegar í andsvörum athugasemdum hv. þm. Bjarna Benediktssonar.

Ég vil nefna í sambandi við það sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson kom inn á sérstaklega og tengdist reyndar öðru máli, sem rætt var hér að mér fjarverandi á miðvikudaginn en vissulega mjög skylt og hefði að mínu mati að mörgu leyti verið kostur að ræða bæði málin saman, að ég held að sjónarmið hv. þingmanns um veiðar og vinnslu sérstaklega sé vissulega fullgilt. Það var talsvert mikið rætt og skoðað hvernig ætti að nálgast þetta út frá þeirri staðreynd að sjávarútvegurinn er að sjálfsögðu í fjölbreytni sinni ólíkt settur gagnvart þessu, sum útgerðarfyrirtæki eru hrein útgerðarfyrirtæki, selja afla sinn kannski að uppistöðu til á markaði, flytja hann jafnvel mikið beint út, önnur eru samsett þar sem bæði veiðar og vinnsla eru innan sömu einingar í rekstri og kannski sáralítill eða enginn afli fer út fyrir fyrirtækið í öllu vinnsluferlinu, jafnvel þangað til hann er kominn í sölu á mörkuðum erlendis.

Þetta er reifað í greinargerð frumvarpsins og sú niðurstaða sem þar er fengin, að reyna að horfa til heildarrentunnar eins og hún myndast innan sjávarútvegsins, er að sjálfsögðu ekki gallalaus. Það skal ég alveg fúslega viðurkenna, það er ekki einfalt en það er heldur ekki einfalt að gera það ekki því að þá kemur upp sú spurning hvort þeirri hættu sé ekki boðið heim að hluti rentunnar sé með undirverðlagningu færður yfir í vinnsluna og fari þannig frá greininni.

Þetta má hugsa sér að leysa með skýrari bókhaldslegum aðskilnaði, að gera ríkari kröfur um skýran greinarmun á veiðiþættinum innan samsteypunnar og vinnsluþættinum. Það verður ugglaust skoðað að einhverju leyti í framhaldinu. Ég hef ekki verið talsmaður þeirrar kröfu að fara út í formlegan aðskilnað því að það er á kostnað umtalsverðrar hagkvæmni sem samsettu fyrirtækin sýna í reynd. Áskilnaður um skýran bókhaldslegan aðskilnað gæti mætt þessu sjónarmiði að einhverju leyti.

Hv. þm. Pétur Blöndal spurði um þrjú atriði sem varða fiskveiðifrumvarpið, um 9. gr. þess og meðferð nýrra stofna. Því er lýst í greininni hvaða viðmiðanir skuli þar viðhafðar og nánar útlistað í greinargerð. Í raun er ekki verið að gera þar að stofni til aðra breytingu en þá að búa til svigrúm fyrir stjórnvöld til að stýra veiðum stofna sem ekki hafa verið settir í kvóta og ekki eru forsendur til að útdeila aflahlutdeildum í en á grundvelli málefnalegra sjónarmiða á meðan slík reynsla og slík þróun verður „í stöðugu umhverfi“ eins og þar er sagt. Síðan yrði það þá hlutverk Alþingis að takast á við endanlegar ákvarðanir í slíkum tilvikum eins og þar er sérstaklega mælt fyrir um.

Í öðru lagi spurði hv. þingmaður hvaða verð yrði lagt til viðmiðunar ef ríkið neytti forgangsréttar síns. Því er lýst nokkuð í greininni, þ.e. annaðhvort yrði um að ræða kaupverðið, verðið í viðkomandi viðskiptum, og ef það hins vegar virtist vera afbrigðilega langt frá því sem eðlilegt gæti talist yrði eftir atvikum farin úrskurðar- eða gerðardómsleið.

Í þriðja lagi spurði hv. þingmaður um sveitarfélögin. Fleiri hafa reyndar komið inn á það hvaða hugmyndir séu uppi um hvernig ráðstafað yrði þeim tekjum sem sveitarfélögunum eru ætlaðar. Það hefur verið rætt og ég hef aðeins undirstungið vissa forustumenn á vegum sveitarfélaganna um það hvernig þeim lítist á þá hugmynd að landshlutasamtökin yrðu móttakendur slíkra tekna, fengju þar með tekjustofn sem þau hefðu til ráðstöfunar í atvinnuþróun sína, sóknaráætlanir og annað í þeim dúr. Ég held að það sé mun álitlegri aðferð en fyrri hugmyndir um að reyna að búa til eitthvert útdeilingarkerfi og skipta þessu niður á einstök sveitarfélög. Sérstaklega umdeilt held ég að það hefði alltaf orðið ef núverandi umsvif sjávarútvegs í byggðunum hefðu átt að ráða hlutdeild þeirra í tekjunum þannig að þau sem eru enn þá best sett með mestar veiðiheimildir fengju mest og hin sem hafa misst frá sér fengju lítið eða ekkert. Síðan kemur upp spurningin um landlukt sveitarfélög þar sem ekki er útgerð en þau deila náttúrlega kjörum í sínum landshluta með nágrönnum sínum. Yrði einhvern tímann friður um að þau fengju ekkert? Það efast ég mjög um, auk þess sem ég held að skilvirkt geti verið að efla það stjórnsýslustig sem landshlutasamtökin eru og að þau fengju meira afl á bak við sig til að sinna verkefnum sínum. Það kemur inn á það sem hv. þm. Jón Bjarnason nefndi meðal annars um hlutdeild byggðanna eða sveitarfélaganna í þessum tekjum. Gert er ráð fyrir því að ríki, sveitarfélög og greinin deili með sér öllum tekjum sem myndast við útleigu á veiðiheimildum úr hlut ríkisins. Þar gæti orðið um þónokkrar tekjur að ræða, jafnvel strax á næsta eða næstu árum, 2,5, 3, 3,5 milljarða kr. jafnvel. Hlutur sveitarfélaganna í því gæti þar af leiðandi orðið 1–1,2 milljarðar, jafnvel 1,4–1,5, og munar þá talsvert um það ef það yrði framtíðartekjustofn fyrir sveitarfélögin á grundvelli síns svæðisbundna samstarfs.

Varðandi skattlagninguna að öðru leyti er ekki gert ráð fyrir öðru en að veiðigjaldið renni að minnsta kosti næstu fjögur árin til ríkisins enda liggur þegar fyrir ríkisfjármálaáætlun þar sem gert er ráð fyrir því að ríkið, á þessum tíma, meðan það er að komast út úr hallarekstri og laga stöðu sína, þurfi á þessum tekjum að halda og njóti þeirra. Það á ekki að koma neinum á óvart, allra síst þeim sem sátu í ríkisstjórn á þeim tíma sem það fór í gegnum þingið og var samþykkt til framlagningar á Alþingi á útmánuðum í fyrra, ríkisfjármálaáætlun til meðallangs tíma kennd við fjallið Herðubreið. Ég geri ráð fyrir að hv. þingmenn þekki hana. Þar er þetta skýrt skrifað út og aðstæður í ríkisfjármálum held ég að rökstyðji það út af fyrir sig með fullnægjandi hætti. Annars konar ráðstöfun á umtalsverðum tekjum á meðan ríkið er enn rekið með halla er auðvitað ekki einfalt mál.

Allt annað mál kann að gilda um framtíðina. Að sjálfsögðu má ræða bæði sjónarmið um að sveitarfélögin og byggðirnar njóti í ríkari mæli góðs af, en ég held að ekki væri síður áhugavert að ræða þá um möguleikann á einhvers konar auðlindasjóðsmyndun sem gæti haft fjölþættu hlutverki að gegna, annars vegar að hann ráðstafaði til þeirra verkefna sem skilgreind eru. Segjum að það væru framkvæmdir innan samgönguáætlunar eða aðrir slíkir hlutir, að efla rannsókna- og þróunarstarf og samkeppnissjóðina, rannsóknasjóðina, eða verkefni á sviði umhverfismála o.s.frv. Hins vegar gæti slíkur sjóður þjónað talsverðu sveiflujöfnunarhlutverki. Vegna þess að hér kann að vera um sveiflukenndan tekjustofn að ræða gæti það verið gagnlegt bæði í hagstjórnarlegu tilliti og út frá áætlanagerð í ríkisfjármálum og öðru slíku.

Hugsanlega munu Íslendingar í fyllingu tímans kjósa að mynda sér ígildi einhvers konar olíusjóðs í formi tekna af auðlindum sem vonandi geta orðið miklar á komandi árum og áratugum. Munar þar ekki síst um það ef orkuframleiðsla í landinu fer að skila meira afgjaldi til eiganda sínar, þjóðarinnar, t.d. í gegnum vaxandi arðgreiðslur Landsvirkjunar.

Það má auðvitað ræða þetta út frá ýmsum hliðum varðandi sjávarútveginn og þá staðreynd að hann er burðarás atvinnulífs á landsbyggðinni. Þar af leiðandi nálgast sumir þetta þannig að hvers kyns skattlagning á hann sé þar með sérstök skattlagning á landsbyggðina. Ég bið menn sem lenda of djúpt í því fari að hugsa aðeins sinn gang. Er þá hvers kyns skattlagning á fyrirtæki sem eru með höfuðstöðvar sínar á höfuðborgarsvæðinu sérstök skattlagning á höfuðborgarsvæðið? Eiga þá ekki aðrir hlutdeild í þeim tekjum? Þurfum við ekki aðeins að rifja það upp fyrir okkur sjálfum að við erum þó ein þjóð í þessu landi með einn ríkissjóð og sameiginlegar skilgreindar þarfir á fjárlögum sem ráðstafað er til verkefna?

Ég held að það sé misskilningur að blanda fullkomlega réttmætri umræðu um hlutdeild landsbyggðarinnar í hinum sameiginlegu tekjum, miðað við það sem hún leggur af mörkum eða miða við fólksfjölda eða hvað það er, saman við það hvort við ætlum að fara alla leið og greina uppruna teknanna og eyrnamerkja þær svæðunum á grundvelli þess. Þá held ég að menn ættu að hugsa sinn gang og ekki víst að landsbyggðin dragi endilega lengri stráin í því ef menn fara út á þá braut. Ég nálgast þetta algerlega frá öndverðum sjónarhóli. Ég lít svo á að við séum öll eins í því sem skattgreiðendur í landinu, hvar sem við búum, en við eigum líka öll rétt á okkar hlutdeild í þjónustu og sameiginlegum þörfum sem við leysum sameiginlega á félagslegum grunni í gegnum okkar sameiginlegu sjóði. Þannig á að nálgast þetta og hitt er býsna varhugaverður leiðangur að mínu mati.

Sem eðlilegt er hefur verið rætt dálítið um sjálfar viðmiðunarfjárhæðirnar og prósentur. Það var athyglisvert að heyra hv. þm. Pétur H. Blöndal vera svo kjarkmikinn að lýsa því yfir hverja hann teldi ávöxtunarkröfuna á fjármagn í greininni þurfa að vera til að það væri ásættanlegt, 11%. Þá erum við ekkert svo óskaplega langt hvor frá öðrum miðað við það að meðaltalsprósentan í þessu frumvarpi, ef við tökum bæði veiðar og vinnslu, er 9%. Við erum farnir að tala talsvert saman, sýnist mér. (Gripið fram í.) Ég viðurkenni að sjálfsögðu að þessar prósentur færa mikið til, þær eru næmar, það er alveg rétt. Það hvar þær nákvæmlega liggja skiptir verulegu máli og færir til fjárhæðir. Kannski þurfum við að nota þarna aukastafi ef vel á að vera.

Að lokum bara örstutt almennt um sjávarútvegsmálin sem hér hefur borið á góma. Mér finnst að mörgu leyti ánægjulegt að við skulum vera að ræða þau við þær aðstæður sem raun ber vitni. Það gengur mjög vel í íslenskum sjávarútvegi. Verðmætasköpunin er gríðarleg enda eru skilyrðin að uppistöðu til mjög hagstæð. Þannig hefur það ekki alltaf verið og það þurfum við að muna. Við eigum frekar að reikna með núverandi ástandi sem undantekningu en meginreglu, ekki í þeim skilningi að við viljum ekki að sjávarútveginum gangi vel og viljum ekki gjarnan að skilyrðin séu hagstæð en ég held að við eigum ekki að reikna með því að við búum um árabil við það að raungengi krónunnar sé um eða yfir 20% undir sögulegu meðaltali og að það fari saman við tíma þar sem verð á mörkuðum er hátt og aflabrögð góð. Það gerir auðvitað aðstæðurnar mjög sérstakar. Eins og ég sagði er það fyrst og fremst einn þáttur sem má segja að sé neikvæður í sögulegu samhengi og það er hátt olíuverð. Það er að vísu líklegra til að vera komið til að vera en margir vilja vera láta og telja.

Hitt sem út af fyrir sig er neikvætt er hvað sjávarútvegurinn var orðinn skuldugur. Það er umhugsunarefni hvers vegna hann var jafnskuldugur fyrir hrun og raun ber vitni. Ein augljós skýring er að menn hafi keypt upp veiðiheimildir, keypt sannarlega aðra út úr greininni og það gerðu menn á alveg geysilega háu verði. (Gripið fram í: Útrás.) Svo fóru aðrir í útrás og voru óheppnir í því o.s.frv. Svo kom gengisfall krónunnar og skrúfaði upp skuldirnar sem vel að merkja er nú að einhverju leyti verið að afskrifa þessa mánuðina fyrir dóma. Fróðlegt verður að sjá hvernig sú staða verður.

Það ánægjulega er að sjávarútvegurinn hefur greitt þessar skuldir hratt niður undanfarin missiri. Eigið fé sjávarútvegsins hefur styrkst geysilega hratt frá því að vera neikvætt um yfir 50 milljarða í árslok 2008 í að vera væntanlega jákvætt upp á um og yfir 100 milljarða um síðustu áramót og stefna kannski í 140–150 milljarða í lok þessa árs ef vel gengur.

Fyrir mann sem hefur fylgst með þessu nokkuð lengi eins og ég hef gert síðustu 28 eða bráðum 29 ár, ein af mínum fyrstu eldskírnum var umræða um kvótakerfið þegar verið var að setja það á hér í desember 1983, er í það heila tekið ekki annað hægt en að gleðjast yfir því að greinin hefur á margan hátt styrkst. Hún stendur traustum fótum og ég hef ekki þær áhyggjur af henni sem sumir virðast vera láta núna, að þessar breytingar muni draga úr henni þróttinn. Þvert á móti held ég að það eigi að vera hægt að finna málefnalega lendingu í þessum efnum sem skapa henni góð rekstrarskilyrði.

Takk fyrir alla umhyggjuna sem margir hafa sýnt sjávarútveginum hér í umræðunni en við ætlum væntanlega líka að sýna þjóðinni og hennar sameiginlega sjóði umhyggju. (Gripið fram í.)