140. löggjafarþing — 81. fundur,  30. mars 2012.

fjölmiðlar.

599. mál
[15:04]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Um það síðasta fyrst. Eignarhaldsnefndin komst að þeirri niðurstöðu, og ég er henni sammála, að þær reglur séu ekki nægilegar, þ.e. reglur hins hefðbundna samkeppnisréttar, af þeim orsökum sem ég reyndi að fara yfir í framsöguræðu minni, þ.e. að það komi til önnur sjónarmið af því fjölmiðlar séu ekki eins og hver annar hefðbundinn markaður, að það verði að horfa til fjölmiðlaréttarlega sjónarmiða í ljósi þess að áhrif fjölmiðla geti til að mynda verið mun meiri en efnahagsleg staða þeirra greinir á um. Þess vegna taldi ég ekki að það væri nægilegt, ég er sammála þeirri niðurstöðu.

Hvað varðar 6., 7. og 10. gr. er rétt, að sumu leyti að minnsta kosti — þó vil ég minna á að í greinargerð með 6. gr. er verið að ræða sérstaklega um að friðhelgi einkalífs, að hún skuli virt nema lýðræðishlutverk og upplýsingaréttur almennings krefjist annars. Ákvæði þess efnis í frumvarpinu, að virða skuli friðhelgi einkalífs nema almannahagsmunir krefjist annars, hefur skírskotun til 5. gr. laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Þar er litið svo á að þetta sé ekki nægjanlega skýrt ákvæði, þ.e. að tala um almannahagsmuni. Þess vegna er verið að breyta orðalagi í 6. gr., það er talað um upplýsingarétt almennings og lýðræðishlutverk fjölmiðils. Ég hef ekki skilið það svo að verið sé að ganga gegn áliti hv. menntamálanefndar á sínum tíma, heldur snúist þetta að einhverju leyti um skilgreiningar sem ekki eru taldar nægilega skýrar í gildandi lögum, ég tek það fram.

Hvað varðar skoðanakannanirnar, af því ég næ nú kannski ekki að fara yfir þetta allt, var það upphafleg hugmynd mín að leggja til viku, en það þótti ganga alllangt þegar ég bar þær hugmyndir undir félaga mína, bæði í stjórnmálum og löggjafarskrifstofu forsætisráðuneytis. Ég kynnti þá hugmynd fyrir framkvæmdastjórum stjórnmálaflokkanna, en þetta var niðurstaðan. Ég kem að fleiru hér í síðara svari mínu.