140. löggjafarþing — 81. fundur,  30. mars 2012.

fríverslunarsamningur EFTA og Samstarfsráðs Arabaríkjanna við Persaflóa o.fl.

604. mál
[16:03]
Horfa

Magnús M. Norðdahl (Sf):

Herra forseti. Hér er samkynja mál á ferðinni en þó er sá munur á að samningarnir við Flóabandalagið — en ég hef alltaf skilið að Flóabandalagið sé samstarf Verkalýðsfélagsins Eflingar í Reykjavík og verkalýðshreyfingarinnar í Hafnarfirði og Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur. Hér er komið nýtt Flóabandalag en í því eru konungsríkið Barein, konungsríkið Sádi-Arabía, soldánsveldið Óman, Katar og Kúveit. Þetta eru nú ekki stór lýðræðisríki í okkar góða heimi en í þeim samningum sem hér eru gerðir við þennan ríkjahóp er því miður ekki að finna eins skýr mannréttindaákvæði og í samningnum við Kína. Þá er einungis hálf sagan sögð því að þeir lofa jú að árétta stuðning sinn við þær meginreglur og markmið sem sett eru fram í sáttmála Sameinuðu þjóðanna og almennu mannréttindayfirlýsingunni, á meðan bræður okkar og vinir í Kína eru látnir skrifa upp á skuldbindingu sína um að virða lýðræði, réttarríkið, mannréttindi og mannfrelsi, einnig stjórnmálafrelsi og efnahagsfrelsi í samræmi við skyldur sínar samkvæmt þjóðarrétti. Ég harma að ekki hafi tekist að koma sams konar ákvæðum inn í þennan samning eða gera sérstakan samning um vinnumál við þennan ríkjahóp eins og tókst að gera við Kína.

En allar ferðir byrja á einu skrefi og eins og utanríkisráðherra fór yfir þegar við ræddum síðasta mál á dagskrá er þetta þróun sem er í gangi. Henni þurfum við að halda áfram og það er ekki síður mikilvægt að taka á viðvarandi mannréttindabrotum í þessum arabaríkjum og þeirri staðreynd að þar finnast nánast ekki frjálsar verkalýðshreyfingar eða frjáls samtök atvinnurekenda.