140. löggjafarþing — 81. fundur,  30. mars 2012.

fríverslunarsamningur EFTA og Svartfjallalands og landbúnaðarsamningur Íslands og Svartfjallalands.

605. mál
[16:10]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil rétt segja örfá orð í tilefni af þeirri þingsályktunartillögu sem hæstv. utanríkisráðherra hefur mælt fyrir og hann hefur reyndar nú þegar mælt fyrir annarri þingsályktunartillögu um fríverslunarsamninga. Ég tel að það sé mikilvægt fyrir okkur að vinna að gerð fleiri fríverslunarsamninga, en það hefur verið gert á vettvangi EFTA, Fríverslunarsamtaka Evrópu. Við höfum unnið að fríverslunarsamningum við fleiri ríki á Balkanskaga og ég vil sérstaklega fagna því að við erum að auka tengsl okkar og samskipti við Balkanskagann. Þetta eru ríki sem hafa gengið í gegnum miklar hremmingar á umliðnum árum, kannski tveimur áratugum eða svo, og eru auðvitað í mikilli uppbyggingu og þurfa á því líka að halda að eiga öflug og góð viðskipti. Ég tel að í þessum samningi felist auðvitað sóknarfæri fyrir okkur Íslendinga, eins og hæstv. utanríkisráðherra gat um, um ýmsar vörur sem samningurinn tekur til, meðal annars landbúnaðarvörur og iðnaðarvörur, en einnig felast í þessu mikil sóknarfæri fyrir þessi ríki á Balkanskaga, þar með talið Svartfjallaland.

Ég átti þess kost sem formaður þingmannanefndar EFTA að heimsækja ríki á Balkanskaga haustið 2010 í tilefni af því að verið var að undirbúa þessa fríverslunarsamninga. Við fulltrúar Alþingis og annarra þjóðþinga EFTA-ríkjanna áttum fundi með starfsfélögum okkar í ýmsum löndum á Balkanskaga hvað þetta varðaði og ég veit að þau leggja mikla áherslu á samninga af þessum toga. Ég fagna því að hér er einn slíkur kominn til viðbótar og mun fyrir mitt leyti leitast við að utanríkismálanefnd taki þá fljótt og vel til afgreiðslu.