140. löggjafarþing — 81. fundur,  30. mars 2012.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 19/2012 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

609. mál
[16:14]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Með þessari tillögu óska ég eftir því að Alþingi heimili að fyrir Íslands hönd verði staðfest ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem ber það númer sem hæstv. forseti gat um áðan, 19/2012. Hún felur í sér að inn í EES-samninginn er felld tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins sem ber númerið 2010/76/ESB. Hún varðar eiginfjárkröfur vegna veltubókar og endurverðbréfana og sömuleiðis eftirlit með starfskjarastefnu og er nú sá þáttur tilskipunarinnar sýnu merkilegastur að mínu viti.

Þessari tilskipun er meðal annarra hluta ætlað að koma í veg fyrir að starfsmenn séu verðlaunaðir fyrir að taka miklar áhættur í starfi sínu. Eftirlitsaðilum eru veittar heimildir til að beita fjármálafyrirtæki sektum fari þau ekki að nýjum reglum varðandi starfskjarastefnu. Þannig er tilskipunin í reynd beinlínis svar við því sem menn telja að sé ein af orsökunum fyrir þeirri fjármálakreppu sem riðið hefur yfir Vesturlönd á síðustu árum. Þar hafa menn talið að kerfið hafi ýtt undir það með óhóflegum bónusum og óhóflegum verðlaunum og umbunum til starfsmanna sem tekið hafa of miklar áhættur og ekki sést fyrir.

Samkvæmt þessu munu árangurstengdar greiðslur verða metnar eftir því hve mikil áhætta er tekin eða var tekin og þau munu líka taka mið af lengri tíma. Tilskipunin á sem sagt, eins og ég sagði, að koma í veg fyrir að einstaka starfsmenn séu verðlaunaðir fyrir að taka miklar áhættur í starfi. Eftirlitsaðilum eru sömuleiðis veittar ríkar heimildir til að beita fjármálafyrirtæki sektum ef þau fara ekki að nýjum reglum varðandi starfskjarastefnu.

Sömuleiðis kveður tilskipunin á um að gera skuli hærri eiginfjárkröfur í fjárfestingarfélögum og lánastofnunum þegar um endurverðbréfun er að ræða, að auknar kröfur verði gerðar til upplýsingaskyldu fjármálafyrirtækjanna varðandi áhættur sem því tengjast. Breytingar eru sömuleiðis gerðar á því hvernig fjármálafyrirtæki skuli meta áhættur tengdar veltubók.

Eins og jafnan kallar innleiðing tilskipana á breytingu á lögum. Í þessu tilviki er um að ræða breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, sem við vitum að hefur margt á sinni könnu, mun eigi að síður beita sér fyrir því að samið verði í kjölfar þessa lagafrumvarp sem lagt verði fram á næsta haustþingi til þess að innleiða þessa ágætu tilskipun. Ég get þess alveg sérstaklega fyrir áhugamenn um innleiðingar að alls ekki er gert ráð fyrir að innleiðing þessarar tilskipunar hér á landi hafi í för með sér teljandi stjórnsýslulegar eða efnahagslegar afleiðingar fyrir íslenska ríkið. Í reynd er hér um að ræða afléttingu á stjórnskipulegum fyrirvara sem gerður var við þessa tilteknu ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, en í því felst að samþykkt ákvörðunarinnar er háð samþykki hins háa Alþingis.

Ég legg svo til, herra forseti, að þessi góða tillaga verði send rakleiðis nákvæmlega sömu leið og hinar fyrri sem ég hef mælt fyrir í dag, þ.e. til þeirrar nefndar sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson veitir forustu, hinnar virðulegu utanríkismálanefndar Alþingis.