140. löggjafarþing — 81. fundur,  30. mars 2012.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 19/2012 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

609. mál
[16:22]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það vill nú svo til að ég er að undirbúa frumvarp sem verður væntanlega dreift á morgun eða hinn einmitt um þetta mál. Við erum enn þá með í lögum að heimilt sé að lána ótakmarkað til starfsmanna við kaup á hlutabréfum. Við erum enn þá með það þremur árum eftir hrun, ótakmarkað — peningur sem fer í hring en eykur eigið fé bankans eða hlutafélagsins. Ég ætla að takmarka þá heimild og ég ætla auk þess að banna slíka hringferð fjár.

Það er eitthvað sem Evrópusambandið ætti að kíkja á. Ég er búinn að flytja hér í þrígang frumvarp um gegnsæ hlutafélög. Ég veit ekki hvort Evrópusambandið hefur einhvern tíma fengið að skoða það eða hefur áhuga á að skoða það en þar er einmitt sýnt fram á hvernig hægt er að búa til heila keðju af fyrirtækjum, 18 fyrirtæki, þar sem ekki er ein einasta evra eða dollari eða króna í en samt sýna þau eigið fé, hvert einasta, og menn geta valið hversu mikið eigið féð er.

Það er því veila í hlutabréfaforminu og ég skora á hæstv. ráðherra ef hann skyldi hitta kollega sína að benda þeim á að þessi veila er alþjóðleg, hún er ekki bundin við Ísland.