140. löggjafarþing — 81. fundur,  30. mars 2012.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 20/2012 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

610. mál
[16:29]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að hin upphaflegu orð hv. þingmanns sem hann leit bersýnilega á sem mismæli eigi fullan rétt á sér. Við þurfum að ráðast að vanda rótanna. Ræturnar í þessu tilviki eru akkúrat þau tengsl sem hv. þingmaður hefur minnt á hér í tveimur ræðum.

Það er algjörlega ljóst að matsfyrirtækin voru ekki nægilega skyggn til að sjá þau eða skilja. Það er sömuleiðis algjörlega rétt sem hv. þingmaður segir að það voru ekki síst stöðugar einkunnargjafir af hálfu þessara þriggja eða fjögurra heimsþekktu og stærstu matsfyrirtækja sem blekktu íslenskan almenning og sennilega líka ófáa stjórnmálamenn til þeirrar trúar að allt væri með felldu í íslensku fjármálakerfi þegar ekki var svo. Þessi tilskipun og þær lagabreytingar sem af henni spinnast eru til þess fallnar að að minnsta kosti freista þess að læra af reynslunni og reyna að setja þessum fyrirtækjum strangari kröfur. Eins og hv. þingmaður veit jafn vel og ég hafa þau sætt mikilli og vaxandi alþjóðlegri gagnrýni. Þau eru eigi að síður eitt af þeim tækjum sem hinn skrýtni kapítalmarkaður fer mjög eftir, hann leggur gríðarlegan trúnað á orð og mat þeirra. Með þessu verið að reyna að setja reglur sem tryggja eiga betur að það standist sem þau segja og sömuleiðis að fyrirtækin, þau sem starfa innan Evrópu og þau sem staðfestu eiga utan Evrópu, vinni eftir sambærilegum reglum og þannig að hægt sé að treysta því að gæðin séu sambærileg. Fyrst og fremst er markmiðið að það sé yfir höfuð hægt að treysta þeim.

Reynsla okkar Íslendinga af hruninu var vitaskuld sú að ekki var orði að trúa sem þau sögðu að minnsta kosti fyrir 2008.