140. löggjafarþing — 81. fundur,  30. mars 2012.

ákvörðun EES-nefndarinnar um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

611. mál
[16:32]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Til að upplýsa þá mörgu áhugamenn um þau mál sem ég flyt nú — og ekki síst hv. þm. Kristján Þór Júlíusson — vil ég segja að öndvert við hin málin, þar sem ég leitaði eftir heimild Alþingis til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara og þar með að staðfesta ákvarðanir sem þegar var búið að taka í sameiginlegu EES-nefndinni, óska ég nú eftir heimild Alþingis til að staðfesta fyrirhugaða ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar.

Eins og hæstv. forseti gat um hér áðan varðar málið breytingu á XX. viðauka EES-samningsins. Sá fjallar um umhverfismál. Gert er ráð fyrir að fella inn í samninginn tilskipun þingsins og ráðsins sem auðkennd er 2009/29/ EB. Hún felur í sér breytingu sem hefur í för með sér að kerfi bandalagsins fyrir viðskipti með heimildir til að losa gróðurhúsalofttegundir er bæði víkkað og bætt.

Breytingin felur í sér mjög víðtæka endurskoðun á tilskipun sem merkt er 2003/87/EB, en eins og hv. þingmenn, að minnsta kosti áhugamenn um umhverfismál og það sem þar hefur hæst borið, losunarheimildir, vita fól hún í sér að á fót yrði komið viðskiptakerfi með losunarheimildir innan sambandsins. Með þessari nýju tilskipun eru ýmsar nýjar tegundir iðnaðarstarfsemi og nýjar gróðurhúsalofttegundir felldar undir kerfið. Þannig er til dæmis losun koldíoxíðs vegna álframleiðslu og járnblendis og föngun, flutningur og geymsla koltvísýrings í jarðlögum felld undir það svið sem kerfið nær til.

Það verða sömuleiðis með þessum breytingum töluverðar breytingar, ég vil ekki segja veigamiklar breytingar, samhliða á uppbyggingu og stjórnskipulagi kerfisins hvað varðar staðbundinn iðnað. Þessar nýju reglur fela í sér meiri einsleitni og einnig samræmingu við framkvæmd kerfisins. Um leið er ekki hægt að draga aðra ályktun af reglunum en að þær feli líka í sér aukna miðstýringu í þessum efnum af hálfu sambandsins. Fjöldi losunarheimilda í kerfinu verður þannig ekki ákveðinn af hverju aðildarríki fyrir sig eins og gilt hefur, heldur verða ein sameiginleg losunarmörk fyrir sambandið í heild. Þeim verður síðan úthlutað eftir samræmdum reglum fyrir allt sambandið og ein af þeim breytingum sem verða er þá sú að úthlutunarviðmiðin verða ekki lengur á forræði hvers aðildarríkis.

Í viðræðum EFTA-ríkjanna við framkvæmdastjórn sambandsins á vettvangi EES-samstarfsins hefur verið gert ráð fyrir því að losunarheimildir EFTA-ríkjanna verði sem sagt í sama potti og losunarheimildir Evrópusambandsríkjanna er kemur til úthlutunar. Sú niðurstaða er EFTA-ríkjunum, þar með töldu Íslandi, mun hagfelldari en ef sérstakur pottur losunarheimilda yrði veittur EFTA-ríkjunum til sérstakrar úthlutunar. Þessi lausn gerir hins vegar kröfu til þess að EES/EFTA-ríkin afhendi upplýsingar um sögulega losun og annað sem kann að skipta máli þegar til úthlutunar úr hinum sameiginlega potti kemur, dagsetningin sem þessu þarf að vera lokið fyrir er síðasti dagur ágúst í sumar. Til að svo geti orðið þarf jafnframt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, um upptöku tilskipunar 2009/29/EB inn í EES-samninginn, að hafa öðlast gildi.

Það er fyrirhugað að á þessu þingi leggi umhverfisráðherra fram frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 65/2007 en þau fjalla um losun gróðurhúsalofttegunda. Markmið þess frumvarps er að innleiða þá tilskipun sem ég hef hér fjallað um. Það er hins vegar svo að það eru ýmsir óvissuþættir um efni ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar, menn eru að vinna að því þessa stundina, og varða upptöku umræddrar tilskipunar í EES-samninginn. Það gæti mögulega tafið fyrir meðferð fyrirhugaðs lagafrumvarps á því löggjafarþingi sem nú er háð. Af þeim sökum þykir varlegra — að höfðu samráði EFTA-ríkjanna allra, að í ljósi þeirra ríku hagsmuna sem EES/EFTA-ríkin hafa af því að falla undir þetta breytta viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda strax frá upphafi gildistíma þess, en upphafsdagur hans er 1. janúar 2013 — að leggja til við Alþingi, eins og ég hef einu sinni áður gert af svipuðu tilefni, að löggjafarþingið heimili fyrir fram að Ísland samþykki ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar án þess, eins og þó er háttur yfirleitt, að settur verði nokkur stjórnskipulegur fyrirvari af Íslands hálfu.

Með öðrum orðum, frú forseti, til þess að einfalda þetta mál, í stað þess að innan sameiginlegu EES-nefndarinnar sé tiltekin ákvörðun samþykkt með fyrirvara um samþykki Alþingis, er sú leið farin til að flýta vinnunni að leitað er eftir samþykki Alþingis fyrir fram og því jafnhliða gerð grein fyrir eðli og umfangi málsins. Þessi leið mundi tryggja hvað Ísland áhrærir að ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar gæti þegar tekið gildi óháð framgangi lagafrumvarps þess sem ég greindi frá að hæstv. umhverfisráðherra hyggist leggja fram til þess að innleiða þessa tilskipun.

Frú forseti. Það er síðan einlæg bón mín til þingsins og hæstv. forseta að þegar umræðunni lýkur verði þessu merka máli vísað til hv. utanríkismálanefndar.