140. löggjafarþing — 81. fundur,  30. mars 2012.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 32/2012 um breytingu á XXII. viðauka við EES-samninginn.

612. mál
[16:39]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég leita hér heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 32/2012 eins og hæstv. forseti gat um. Með henni er verið að innleiða ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar sem auðkennd hefur verið sem 2011/30/ESB, en hún var tekin 19. janúar 2011. Hún varðar jafngildi opinberra eftirlits-, gæðatryggingar-, rannsóknar- og viðurlagakerfa fyrir endurskoðendur og sömuleiðis endurskoðunarfyrirtæki í tilteknum þriðju löndum gagnvart fyrirtækjum í ESB. Sömuleiðis er þar tekið skýrt fram að tiltekið umbreytingartímabil skal gilda vegna þeirra.

Markmiðið með þessari ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar er að skapa gagnkvæmt traust milli lögbærra yfirvalda í aðildarríkjunum og þessum tilteknu þriðju löndum hvað þetta varðar. Jafnframt á líka að tryggja að réttinda hlutaðeigandi aðila sé gætt. Ákvörðunin kveður einnig á um tiltekið aðlögunartímabil hvað varðar skyldu aðildarríkjanna til skráningar og eftirlits með endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum sem árita reikningsskil félaga sem skráð eru í tilteknum þriðju ríkjum. Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra mun fylgja eftir samþykkt þessarar tillögu með því að leggja fram lagafrumvarp á yfirstandandi löggjafarþingi og það er gleðiefni að ekki er gert ráð fyrir því að þær lagabreytingar hafi í för með sér verulegan kostnað né heldur stjórnsýslulegar afleiðingar hér á landi. Hér, frú forseti, er því um það að ræða að aflétta hefðbundnum stjórnskipulegum fyrirvara við ákvörðun sem tekin var af hálfu Íslands innan sameiginlegu EES-nefndarinnar.

Ég legg til, virðulegi forseti, að þegar þessari umræðu lýkur verði þessu máli líka vísað til hv. utanríkismálanefndar.