140. löggjafarþing — 81. fundur,  30. mars 2012.

þingsköp Alþingis.

565. mál
[16:45]
Horfa

Flm. (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis, um meðferð fjárlagafrumvarps. Málið er á þskj. 882. Meðflutningsmenn að frumvarpinu eru nefndarmenn úr fjárlaganefnd, hv. þingmenn Sigmundur Ernir Rúnarsson, Höskuldur Þórhallsson, Ásbjörn Óttarsson, Björgvin G. Sigurðsson og Illugi Gunnarsson.

Í megindráttum má segja að frumvarp þetta sé sett fram með það að meginmarkmiði að gera umræður um fjárlagafrumvarpið markvissari en verið hefur alllengi og einnig og ekki síður að fá meiri þátttöku ráðherra og fá forustumenn meiri hlutans í þingnefndum til að taka þátt og gefa þeim kost á þátttöku í fjárlagaumræðunni um einstök málefnasvið. Jafnframt er í frumvarpinu gert ráð fyrir að við afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins verði sú atkvæðagreiðsla sem þar hefur átt sér stað og þingmenn þekkja, einfölduð en ekki síður stytt í tíma þannig að öll afgreiðsla verði hraðari og skipulagðari.

Við það mál sem ég legg hér fram og mæli fyrir hefur verið höfð hliðsjón af skipulagi fjárlagaumræðu í Svíþjóð og Noregi þó svo að meðferð fjárlaga í þeim löndum sé töluvert frábrugðin innbyrðis en mjög frábrugðin þeirri umræðu og þeirri hefð sem hér hefur skapast. Í Svíþjóð er um það bil tveggja áratuga hefð fyrir því fjárlagaferli sem þar er byggt á. Meginstefnan í ríkisfjármálum og höfuðlínur fjárlagafrumvarpsins eru þar lagðar fram að vori, en fyrir 15. apríl er lagt fram svokallað vorfrumvarp að fjárlögum. Þar er inni stefnumótandi umgjörð fyrir efnahagspólitík ríkisstjórnarinnar ásamt fjárlagarömmum fyrir næsta ár. Það er grunnurinn að þeirri rammalöggjöf um fjármálin og fjárlögin sem Svíar hafa sett upp. Horfurnar eru metnar og sömuleiðis eru rammar fyrir næstu þrjú, fjögur árin lagðir fram.

Í þessu svokallaða vorfrumvarpi er unnið í um það bil tvo mánuði. Einstakar nefndir fjalla um sína málaflokka og í lokin tekur fjárlaganefndin síðan málið allt saman, gefur álit sitt sem er rætt og staðfest á þinginu. Þegar hið eiginlega sænska fjárlagafrumvarp eins og við þekkjum það kemur fram, venjulega 20. september ár hvert, er þar um að ræða frekari sundurliðun og nánari útlistun á tekjum og gjöldum næsta árs á eftir. Þá hefur stjórnarandstaðan hálfan mánuð frá framlagningu þess, sem er 20. september eins og ég gat um, til að setja fram breytingartillögur sínar. Þá tekur við ferli þar sem fjárlaganefndin fær frumvarpið í heild sinni og leggur fram álit sitt til umræðu og afgreiðslu um miðjan nóvember þannig að þar er ramminn allur markaður. Við tekur um það bil mánaðarlangt ferli þar sem nefndir sænska þingsins taka við fjárlagafrumvarpinu og ramma sinna málaflokka. Þessu er skipt niður í 27 nefndar- eða málefnasvið og hver nefnd skoðar þau svið sem undir hana heyra. Þetta gengur í þeim þrepum að meðan nefndirnar vinna þessa vinnu afgreiðir þingið, eins og ég gat um áðan, hvort tveggja tekjuhliðina og heildarútgjöldin í nóvember og síðan að lokinni umfjöllun nefndanna um málefnasviðin 27 kemur frumvarpið inn í þingið þar sem rædd er skipting innan hvers málasviðs. Umræðan í sænska þinginu er bundin hverju þessara 27 málefni og þeim nefndum sem um þau fjalla hverju sinni.

Það er mjög fróðlegt fyrir íslenska þingmenn að íhuga hvernig Svíar vinna sína vinnu því að oft er erfitt að gera sér grein fyrir því hvernig hlutirnir ganga í fjárlagagerð hjá okkur. Svo háttar til að með því kerfi sem sett hefur verið upp um fjárlagaferlið í Svíþjóð er birt áætlun á vef þingsins um með hvaða hætti nefndir muni taka fyrir sína ramma. Sú áætlun er tímasett, áætlað er hvenær umræðan fari fram og hvenær niðurstaðan liggur fyrir í prentuðu formi.

Þetta er í megindráttum innihaldið í því frumvarpi til laga sem hér er lagt fram til breytinga á þingsköpum, og er markmiðið að einfalda ferlið og verða við ítrekuðum óskum þingmanna um að umræðan um fjárlög íslenska ríkisins verði til muna skipulagðari og meira upplýsandi bæði fyrir þingmenn og ekki síður fyrir þá sem vilja fylgja eftir málum sem varða fjárlagaferlið. Þó ekki sé farið út í það hér að skipta viðfangsefnum upp í 27 svið eru tekin ákveðin skref í þá veru, þeim er skipt upp í fjögur svið, tekjuhliðina, útgjöld á sviði velferðar- og menntamála, útgjöld á sviði atvinnu- og samgöngumála og svo er fjórði flokkurinn útgjöld á sviði opinberrar stjórnsýslu.

Ég vil ítreka að þetta mál er lagt fram eftir allverulegar umræður, vitandi það að þingskapanefnd er að störfum og ætlunin er að reyna að slípa af ýmsa vankanta sem komið hafa í ljós í vinnu þingsins á grunni þeirra nýju þingskapa sem sett hafa verið. Þar vil ég nefna sérstaklega einn agnúa sem ég hef rætt og ræddi í tengslum við fjárlögin fyrir árið 2012, sem laut að verkaskiptingu á milli fjárlaganefndar og efnahags- og viðskiptanefndar. Til samanburðar má nefna að í öllu ferlinu í Svíþjóð liggur fyrir að pólitísk samstaða er á milli allra flokka á sænska þinginu um þann ramma sem dreginn er varðandi fjárlagaferlið og þau mörk sem sett eru varðandi afkomu ríkisins og útgjöld. Til dæmis þegar spurt er hvort ráðherrar eða forstöðumenn stofnana geri ekki tilraunir til að komast út fyrir þá ramma sem þeim eru markaðir er svarið mjög einfalt: Nei, það er ekkert um það að ræða. Það er ekki um neinar aukafjárveitingar að ræða í þeim fjárlögum sem þingið hefur gengið frá, reglurnar sem um það gilda leyfa það ekki og engum stjórnmálamanni á sænska þinginu dettur í hug að fara ekki að þeim ramma sem þar er dreginn. Þetta er, eins og ég gat um, 20 ára gamalt ferli, pólitísk samstaða um það og allir virða það regluverk.

Ég vil nefna að sænska fjárlaganefndin ber ábyrgð á allri umfjöllun um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar og jafnframt málefni seðlabankans, einnig þau mál sem lúta að tökum eða taki á útgjöldum til málaflokka, sömuleiðis áætlanir allar um tekjur ríkissjóðs. Ég vil nefna það líka að nefndin undirbýr einnig öll mál sem varða peningastefnu, lána- og gjaldeyrismál, fjármálamarkaði og skuldastýringu ríkissjóðs ásamt regluverki um tryggingafélög á markaði og málefni ríkisendurskoðunar að því marki sem ekki heyra undir stjórnskipunarnefnd. Sömuleiðis tekur fjárlaganefndin fyrir málefni sveitarfélaga, mannauðsmál ríkisins, tölfræði um þjóðhagsreikninga, reikningshald, endurskoðun, rekstrarhagkvæmni o.s.frv. Ég tel að við endurskoðun þingskapa okkar og þá vinnu sem þingskapanefndin er í þurfi sömuleiðis að horfa til þeirra verkefna sem fjárlaganefnd Alþingis er ætlað að sinna.

Forseti. Ég geri það að tillögu minni að frumvarpinu verði vísað til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar með óskum og tilmælum um að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sendi þetta mál til þingskapanefndar til yfirferðar og afgreiðslu.