140. löggjafarþing — 83. fundur,  16. apr. 2012.

aðildarviðræður við ESB.

[15:12]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Þegar hæstv. ráðherra ræddi þennan möguleika á sínum tíma, að það kynni að koma sá tímapunktur að rétt væri að slíta viðræðum áður en þeim lyki, þá kom að minnsta kosti einn hv. þingmaður, hv. þm. Illugi Gunnarsson, auga á þá hættu sem yrði á því að menn legðu mjög ólíkt mat á það hvenær rétt væri að slíta viðræðum, hvenær þær væru komnar í öngstræti eða hvenær Evrópusambandið hefði gert eitthvað það sem réttlætti það af Íslands hálfu að láta staðar numið.

Hæstv. ráðherra svaraði því þá til að það væri ekki vandamál vegna þess að Alþingi mundi einfaldlega ræða málið, það hlyti að koma til umræðu á þinginu þar sem þingmenn rökræddu það hvort kominn væri sá tímapunktur, hvort þeir hlutir hefðu gerst sem réttlættu afturköllun umsóknarinnar. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Er hann því mótfallinn að slík umræða fari fram í þinginu í samræmi við það sem hann gaf fyrirheit um þegar hann studdi umsókn um aðild að Evrópusambandinu og var sérstaklega spurður út í það hvernig ætti að bregðast við ef menn greindi á um hvort ætti að láta staðar numið eða ekki?