140. löggjafarþing — 83. fundur,  16. apr. 2012.

tvíhliða viðskiptasamningar við Kína og fleiri ríki.

[15:24]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á því að fyrirgefa hv. þingmanni þann vísi að mismæli sem var í upphafi ræðu hans. Ég er viss um að hv. þingmaður, jafnglöggur og hann er og jafn vel og hann fylgist með störfum Alþingis, gerir sér grein fyrir því að það er ekki langt síðan að sá sem hér stendur lagði þrjá, jafnvel fjóra, fríverslunarsamninga fyrir þingið. Stöðugt er unnið að því. Eins og hv. þingmaður veit leggjum við áherslu okkar á viðskiptasamninga fyrst og fremst í gegnum EFTA sem hefur unnið feikilega vel að því máli.

Hv. þingmaður spyr síðan hvort sú vinna sé ekki í gangi. Jú, það er aðaláhersla okkar í gegnum Fríverslunarsamtök Evrópu, EFTA, og það er það sem ég, sem viðtakandi formaður ráðherraráðsins þar, legg mesta áherslu á.

Síðan spyr hv. þingmaður tveggja annarra spurninga. Hann spyr um áherslur okkar gagnvart fríverslunarsamningi við Bandaríkin. Mætur varaþingmaður Framsóknarflokksins lagði fram bæði tillögu og fyrirspurnir til mín á sínum tíma. Ég svaraði því mjög gagngert. Niðurstaða þess er að Bandaríkin hafa ekki áhuga á að fara í slíkar viðræður að svo stöddu út af tilteknum atriðum sem of langt mál er að rekja hér en varðar ekki síst fríverslun með landbúnaðarafurðir. Hv. þingmaður er líklega annarrar skoðunar en stjórnvöld í Bandaríkjunum um hvað ætti að vera í slíkum samningum.

Varðandi þá spurningu sem hv. þingmaður beinir til mín um Kína er það svo að utanríkisviðskiptaráðherra Kína kemur samhliða heimsókn forsætisráðherrans, er ekki í föruneyti hans heldur kemur aðeins á undan. Það er verið að leggja drög að fundi mínum og hans sem yrði sérstakur fundur og þá hef ég óskað eftir því að staðan í fríverslunarviðræðunum við Kína verði rædd þar. Hins vegar er nauðsynlegt að taka fram að þær eru í gangi og ég gaf um það skýrslu til þingsins fyrir sennilega hálfu ári. Í fyrrahaust voru síðustu fundirnir um þær.