140. löggjafarþing — 83. fundur,  16. apr. 2012.

tvíhliða viðskiptasamningar við Kína og fleiri ríki.

[15:27]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Það er misminni hjá hv. þingmanni að ekki hafi verið farið rækilega yfir atburðarásina sem tengist umræðu um hugsanlegan fríverslunarsamning milli Íslands og Bandaríkjanna. Það var gert þegar lögð var fram þingsályktunartillaga, mjög fín tillaga sem var lögð fram af varaþingmanni Framsóknarflokksins. Hún var meira að segja það góð að ég ritaði sérstaka grein í Morgunblaðið til að hrósa henni. Ég var ekki algjörlega sammála henni en ég dró það fram að það kynni að vera að hún birti mismunandi viðhorf innan Framsóknarflokksins til innflutnings á landbúnaðarafurðum. Það var algjörlega ljóst að ef keyra hefði átt áfram þá tilteknu samninga hefði þurft að verða við tilteknum kröfum um aukinn innflutning á landbúnaðarafurðum.

Ég er sammála hv. þingmanni um að við eigum að kasta færum okkar sem víðast. Við eigum að reyna að leggja drög að svona samningum við stórþjóðirnar vegna þess að þótt það skipti ekki miklu máli nákvæmlega núna getur það skipt mjög miklu máli í framtíðinni að hafa slíkan samning, alveg eins og gjörólíkur samningur sem gerður var 1981 um olíu á Jan Mayen svæðinu er núna (Forseti hringir.) farinn að skipta okkur rosalega miklu máli en skipti engu máli á þeim tíma sem hann var gerður.