140. löggjafarþing — 83. fundur,  16. apr. 2012.

trúnaðarupplýsingar af nefndarfundi.

[15:37]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hæstv. forseta út í það hvort forseti hyggist grípa hér inn í líkt og hæstv. forseti gerði þegar forseti úrskurðaði svo að ákveðinn þingmaður hefði brotið þingsköp fyrir stuttu síðan.

Nú er það þannig að a.m.k. einn ef ekki tveir aðrir þingmenn hafa trúlega brotið þingsköp með því að vitna beint í trúnaðarfundi utanríkismálanefndar. Hv. þm. Mörður Árnason lætur hafa eftir sér á mbl.is beina tilvitnun í fund nefndarinnar og ætla má að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson og hæstv. utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson hafi gert það einnig í viðtölum á mbl.is, vísi.is og Smugunni.

Því langar mig að spyrja hæstv. forseta hvort ekki verði tekið á þessum meintu brotum á þingsköpum með sama hætti og gert hefur verið.