140. löggjafarþing — 83. fundur,  16. apr. 2012.

fyrirkomulag úrskurða í vátryggingamálum.

517. mál
[15:46]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir að vekja athygli á þessu máli. Ég er ekki alveg viss um að röksemdir hæstv. ráðherra standist, að draga þá ályktun að óskoðuðu máli að ástæðan sé sú að aðilar sem sendi inn umkvartanir hafi ekki lagt nógu mikið í rökstuðninginn og þar hafi kannski orðið einhver breyting frá því sem áður var. Þetta eru stór og flókin mál og jafnvel þótt kostnaðurinn við að skjóta málinu til viðkomandi úrskurðarnefndar sé ekki mikill getur verið mjög mikill kostnaður á bak við það þegar menn leggja fram svona kærur. Ég held að málið sé þess eðlis að það væri vel þess virði að leggjast aðeins yfir það og ég hvet hæstv. ráðherra til að skoða það betur, en ég hef ekki tíma til að fara nánar í það á þessari einu mínútu sem ég hef, virðulegi forseti.