140. löggjafarþing — 83. fundur,  16. apr. 2012.

innlán heimila og fjármagnstekjur.

720. mál
[15:55]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Nei, ég sé ekki sterkar ástæður til þess að bregðast við af hálfu stjórnvalda vegna lækkunar á innlánum heimilanna, enda mundi þá vakna spurningin hvernig menn hygðust bregðast sérstaklega við því nema það snúi að skattahliðinni sem hv. þingmaður spyr jafnframt um. Veruleikinn er einfaldlega sá að búast mátti við því að innlán heimilanna mundu lækka umtalsvert eftir fjármálahrunið. Á því eru margar nærtækar skýringar. Ugglaust er þar á ferðinni sambland af ýmsum þáttum, svo sem eins og þeim að kaupmáttur ráðstöfunartekna dróst verulega saman fyrst eftir hrunið þó að hann hafi vaxið á nýjan leik. Það var ekkert óeðlilegt við slíkar aðstæður að fólk gengi á sparnað sinn í einhverjum mæli til að bregðast við því ástandi.

Í öðru lagi hafa raunvextir lækkað mjög umtalsvert. Vextir eru lágir á bankainnstæðum og hvati fyrir fólk til að ávaxta fé sitt þannig er því lítill. Þar af leiðandi, í þriðja lagi, kjósa margir sjálfsagt að leita annarra leiða svo sem eins og að greiða niður skuldir, sem skýrir þetta að einhverju marki, miðað við vísbendingar sem þó hefur kannski ekki farið fram ítarleg greining á um að menn hafi í einhverjum mæli greitt niður skuldir. Samhliða lækkun innstæðna lækkuðu yfirdráttarlán á alllöngu tímabili, sem getur einfaldlega verið vegna þess að þegar ávöxtunin var orðin mjög lítil á innstæðum á bankareikningum hafi verið hagstætt fyrir fólk að grípa til þess sparnaðar og ráðstafa honum í slíka hluti.

Varðandi skattlagninguna tel ég að ekki sé ástæða til nema síður sé út frá þessum sjónarmiðum að endurskoða fyrirkomulag á skattlagningu fjármagnstekna. Þær breytingar voru gerðar sem liður í almennum skattbreytingum og þjónuðu vissulega margþættum tilgangi í sínu stóra samhengi svo sem eins og þeim að bregðast við tekjufalli ríkisins og endurreisa efnahagslífið og fjárhag hins opinbera, að dreifa byrðunum af þeirri tekjuöflun með félagslega réttlátum og sanngjörnum hætti og jafna þannig áfallinu út innan samfélagsins eins vel og kostur var.

Í upphafi árs 2010 voru sett frítekjumörk með breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, sem þýða að hver einstaklingur greiðir ekki fjármagnstekjuskatt af fyrstu 100 þús. kr. í vaxtatekjur. Þetta hefur haft umtalsverð áhrif sem ég geri ráð fyrir að hv. fyrirspyrjandi hafi kynnt sér, til dæmis greiddu 46.700 einstaklingar á árinu 2011 fjármagnstekjuskatt fyrir tekjuárið 2010, en árið áður fyrir tekjuárið 2009 greiddu 135.900 einstaklingar slíkan skatt samkvæmt álagningarskrá ríkisskattstjóra. Þannig fækkaði þeim sem greiddu fjármagnstekjuskatt við þessa breytingu um tæp 75%. Með öðrum orðum ber stór hluti almenns sparnaðar og minni fjárhæða á bankareikningum ekki fjármagnstekjuskatt. Það verkar að sjálfsögðu hvetjandi á þann þátt en öðru máli gegnir auðvitað þegar um háar fjárhæðir er að ræða. Þannig að frítekjumarkið hefur að minnsta kosti þann kost að það er ívilnandi fyrir almennan sparnað upp að vissu marki.

Þannig að svarið við báðum spurningunum er þetta: Ég sé ekki að það séu endilega efni til að bregðast með sérstökum hætti af hálfu stjórnvalda við stöðu innlána heimilanna, enda hefur það færst í meira jafnvægi hin síðari missiri eftir umtalsverðar sveiflur fyrst í kjölfar hrunsins, og í öðru lagi tel ég að í það heila tekið séum við með betra fyrirkomulag skattlagningar á fjármagnstekjur en það sem fyrir var.