140. löggjafarþing — 83. fundur,  16. apr. 2012.

erlend lán hjá Byggðastofnun.

595. mál
[16:18]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Það eru hér fimm spurningar sem mig langar að beina til hæstv. iðnaðarráðherra. Ástæðan fyrir því að þessar spurningar eru settar fram eru meðal annars athugasemdir, tölvupóstar og ýmislegt annað sem við þingmenn höfum fengið frá fyrirtækjum sem hafa verið í viðskiptum við eða fengið lán hjá Byggðastofnun í gegnum árin.

Fyrsta spurningin er: Hvað veitti Byggðastofnun mörgum fyrirtækjum erlend lán árin 2000–2008 og hvar á landinu eru þau fyrirtæki? Hér er verið að óska eftir einhvers konar greiningu á því hvernig þessi lán hafa dreifst.

Önnur spurningin hljóðar svo: Hvað margir af þessum lánasamningum hafa verið endurreiknaðir vegna ólöglegs samningsforms? Hér er vitanlega verið að kalla eftir því hvort samningar Byggðastofnunar hafi verið með sama hætti og þeir samningar er aðrar lánastofnanir gáfu út.

Í þriðja lagi er spurt: Hefur höfuðstóll einhverra erlendra lána Byggðastofnunar verið lækkaður þrátt fyrir að samningar um lánin séu löglegir? Hér er verið að óska eftir því að fá upplýsingar um það hvort lánum sem teljast lögleg hafi verið breytt með einhverjum hætti.

Í fjórða lagi er spurt: Telur ráðherra að jafnræðis sé gætt meðal fyrirtækja, t.d. sprotafyrirtækja sem mörg hver höfðu þann eina kost að fjármagna sig í gegnum Byggðastofnun meðan sambærileg sprotafyrirtæki í Reykjavík fjármögnuðu sig í bönkum og þá oft með erlendum lánum? Hér er um að ræða spurningu sem lýtur vitanlega að því að starfsaðstæður þeirra sem reka fyrirtæki, hvort sem það eru sprotafyrirtæki eða önnur, eru mjög misjafnar á Íslandi. Það er vel þekkt að bankarnir, fjármálafyrirtækin, voru mjög tregir til að lána fyrirtækjum úti á landi, fyrir utan höfuðborgarsvæðið, vegna þess að þeir töldu jafnvel að veð væru ekki nógu góð og eitthvað slíkt. Byggðastofnun spilaði því geysimikilvægt hlutverk í því að greiða þessum fyrirtækjum götuna.

Í fimmta lagi: Hyggst ráðherra bregðast við með einhverjum hætti ef samningar sem Byggðastofnun gerði eru allir löglegir og ljóst að staða þeirra sem tóku lán hjá stofnuninni og hafa ekki fengið endurútreikning er verri en þeirra sem fengið hafa endurútreikning? Hér er í raun verið að spyrja um afstöðu til jafnræðis.

Við þingmenn höfum fengið ábendingar um að fyrirtæki hafi jafnvel verið búin að fá lausnir á sínum fjárhagsvanda eða sínum málum hjá fjármálastofnununum en síðan hafi komið að hlut Byggðastofnunar í þeim fjármögnunarpakka sem var í gangi og þar hafi ekki verið hægt að leysa málin þar sem stofnunin hafði ekki þau tæki og tól, þær heimildir, sem þurfti til að bregðast við. Þar af leiðandi hafi fyrirtæki, og það er vitað um fyrirtæki sem það á við um, farið í þrot vegna þessa.