140. löggjafarþing — 83. fundur,  16. apr. 2012.

erlend lán hjá Byggðastofnun.

595. mál
[16:26]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Það kann að hafa farið fram hjá mér en ég veit ekki til þess að ráðherra hafi svarað spurningu nr. 3, hvort höfuðstóll einhverra erlendra lána Byggðastofnunar hafi lækkað þrátt fyrir að samningar láns séu löglegir. Það kann að vera að það hafi farið fram hjá mér en þetta var 3. spurningin, það væri ágætt að fá endurtekið svar við því ef þetta hefur farið fram hjá mér.

Það kemur ítrekað fram hér í svörum að beitt hafi verið svipuðum eða sömu aðferðum og fjármálastofnanir hafi beitt. Ég efast ekki um að þetta sé allt satt og rétt. Hins vegar er ekki hægt að víkja frá því að Byggðastofnun í þessu tilfelli telur vitanlega að samningar sínir séu allir löglegir og ég veit ekki til þess að á það hafi verið látið reyna með einhverjum hætti. Það er hins vegar þannig að mörg fyrirtæki áttu einskis annars kost en að leita til Byggðastofnunar eftir lánafyrirgreiðslu og fengu þar af leiðandi erlent lán eins og margir fengu á sínum tíma og var jafnvel beint inn í þann farveg þó að ég viti svo sem ekki hvort það hafi endilega verið hjá Byggðastofnun. Þeir aðilar sem tóku þessi lán hafa því ekki notið þeirrar fyrirgreiðslu sem felst í því að lán þeirra séu endurreiknuð og þau leiðrétt miðað við þann forsendubrest sem klárlega varð á þessum lánum.

Hér er vitanlega verið að spyrja um það hvort stofnunin eða ríkissjóður, ríkisvaldið, ætli að veita Byggðastofnun þær heimildir sem þurfa þá að vera til staðar til að lækka þessi erlendu lán með sömu hlutföllum og sömu aðgerðum og þeir sem tóku erlent lán hjá fjármálastofnununum hafa notið. Af svörum ráðherra má ráða að ekki standi til að veita Byggðastofnun slíkar heimildir og þykir mér þar um að ræða ákveðna mismunun milli aðila vegna þess að mörg hver þeirra 452 fyrirtækja sem hér um ræðir áttu einskis annars kost en að taka lán hjá Byggðastofnun. Hinar hefðbundnu fjármálastofnanirnar treystu sér ekki til þess að lána þessum fyrirtækjum. Að mínu viti er því ekki verið að koma til móts við þessi fyrirtæki með nógu afgerandi hætti.