140. löggjafarþing — 83. fundur,  16. apr. 2012.

prófessorsstaða tengd nafni Jóns Sigurðssonar.

630. mál
[16:48]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Það ríkti sannkallaður hátíðarbragur á Alþingi þegar við á sínum tíma ákváðum að stofnuð yrði sérstök prófessorsstaða sem tengd yrði nafni Jóns Sigurðssonar. Þetta var gert í tilefni af 200 ára fæðingarafmæli þjóðhetju okkar.

Fram kom í ályktunartextanum að þessi prófessorsstaða ætti að vera við Háskóla Íslands en starfsskyldur þess sem henni gegndi ættu m.a. að vera við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum og í samstarfi við Háskólasetur Vestfjarða. Þetta var nánar tilgreint og útskýrt í greinargerð sem fylgdi þingsályktunartillögunni.

Þar segir svo, með leyfi virðulegs forseta:

„Vel þykir fara á því að starfsstöð prófessorsins verði á heimaslóðum Jóns Sigurðssonar því höfuðviðfangsefni prófessorsins verða rannsóknir og kennsla á þeim sviðum sem tengjast lífi og starfi Jóns. Æskilegt er að prófessorinn hafi búsetu nálægt starfsstöð sinni, sú er reynslan af þátttöku vísindamanna í starfi háskólasetranna, en aðstæður vísindamanna og mat hæfnisnefndar verður þó að ráða niðurstöðu um það atriði hverju sinni.“

Hæstv. forsætisráðherra kom síðan vestur á Hrafnseyri 17. júní í fyrra í tilefni af fæðingarafmæli Jóns Sigurðssonar og áréttaði þessi sjónarmið og sagði þá, með leyfi forseta:

„Sá sem gegna mun stöðunni skal hafa fasta búsetu á Ísafirði eða nágrenni og hafa um kennslu og rannsóknir starfsskyldur og samstarf við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum og Háskólasetur Vestfjarða.“

Það olli okkur síðan miklum vonbrigðum þegar Háskóli Íslands í blóra við vilja Alþingis og yfirlýsingu hæstv. forsætisráðherra auglýsti stöðu prófessorsins til umsóknar og gerði ráð fyrir að starfsstöð yrði á tveimur stöðum, Hrafnseyri við Arnarfjörð og við Háskóla Íslands, en nefndi ekkert búsetuna. Að mínu mati voru þetta mikil brigð af Háskóla Íslands og ég tók þessi mál upp á sínum tíma í óundirbúinni fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra 17. október sl. til að inna hæstv. ráðherra eftir viðbrögðum hennar vegna þess arna. Hæstv. ráðherra tók því vel, tók undir þá lýsingu sem ég hafði gefið á þessu máli og taldi að nauðsynlegt væri að afla skýringa á hvað þarna væri á seyði.

Nú hefur ágætur maður, mjög fær vísindamaður á sínu sviði, verið ráðinn til starfa á grundvelli auglýsingarinnar og er í því sambandi algerlega sniðgenginn vilji hæstv. forsætisráðherra og að ég tel andi þingsályktunartillögunnar jafnframt. Þess vegna hef ég leyft mér, virðulegi forseti, að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort ráðherrann telji auglýsingu og ráðningarferli nýs prófessors sem tengdur er nafni Jóns Sigurðssonar forseta, svo og undirbúningur málsins og fyrirætlanir Háskóla Íslands, samanber nýlega fréttatilkynningu þar um, vera í samræmi við orð hæstv. ráðherra á Hrafnseyri 17. júní 2011 um að sá sem gegna muni stöðunni hafi fasta búsetu á Ísafirði eða nágrenni.