140. löggjafarþing — 83. fundur,  16. apr. 2012.

prófessorsstaða tengd nafni Jóns Sigurðssonar.

630. mál
[16:59]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hef lýst því hvernig að þessu hefur verið staðið af hálfu háskólans og menntamálaráðuneytisins sem hefur stjórnskipulega aðkomu að þessu máli.

Mér finnst hv. þingmaður gera heldur mikið úr búsetunni sem slíkri því að hér er verið að tala um, eins og fram kom í máli mínu, fast aðsetur á Ísafirði og í greinargerð með þingsályktuninni er talað um að æskilegt sé að prófessorinn hafi búsetu nálægt starfsstöð sinni á heimaslóðum Jóns Sigurðssonar. Ég geri ekki mikinn greinarmun (Gripið fram í.) á þessu. Ég held að mikilvægara sé að víkka sem mest út í hið faglega starf og efla það þannig að sem flestir geti komið að því og það hafi áhrif á sem flestum sviðum en ekki lögheimili viðkomandi. Mér finnst skipta mestu máli að þannig sé staðið að málum og allri uppbyggingu með þessari prófessorsstöðu að við getum vænst þess að vísinda- og fræðastarf við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum verði eflt í samstarfi við Háskólasetur Vestfjarða og aðra heimamenn og starfsmenn. Það var aðaltilgangurinn með þessu og ég get ekki annað séð en það (Gripið fram í.) nái algerlega fram að ganga. Hvort um sé að ræða búsetu eða aðsetur á þessum stað, sem er að ganga eftir með leigu á húsnæði fyrir viðkomandi prófessor og starfsmenn hans, fæ ég ekki séð annað en að ef við náum fram tilgangi þessarar þingsályktunar þurfi ekki að amast við því nákvæmlega hvar lögheimilið er.