140. löggjafarþing — 83. fundur,  16. apr. 2012.

áframhaldandi þróun félagsvísa.

616. mál
[17:01]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. velferðarráðherra varðandi áframhaldandi þróun félagsvísa. Félagsvísar, sem höfum við innleitt í nokkrum mæli á síðustu missirum eftir ágæta vinnu á vegum velferðarráðuneytisins og í tengslum við velferðarvaktina, sækja fyrirmynd sína í það sem unnið hefur verið á vettvangi Efnahags- og framfarastofnunarinnar og gengur á ensku undir heitinu „Society at a Glance“. Félagsvísar eru til þess ætlaðir að gefa okkur nokkuð glögga innsýn í stöðu fólks, hina félagslegu stöðu og heilsufarslegu stöðu og aðra þætti er lúta að velferð borgaranna, með svipuðum hætti og hagvísarnir sem við þekkjum frá Seðlabanka Íslands gefa okkur skýra og góða innsýn í stöðu efnahagsmálanna eins og hún er á hverjum tíma. Þetta er þróunarstarf, að þróa félagsvísa af þessu tagi, og fylgir þeirri þróun sem verið hefur að leita að fleiri og fjölþættari mælikvörðum á þróun í samfélagi og á lífsgæði en til að mynda bara verga þjóðarframleiðslu eða aðra slíka fjárhagslega mælikvarða. Ég held að þau skref sem stigin hafa verið á vegum velferðarvaktarinnar hafi sannarlega verið fram á við í þessu efni en augljóst af skýrslu hópsins að þessari vinnu þarf að halda áfram.

Ég hef þess vegna beint þeim fyrirspurnum til hæstv. ráðherra, í fyrsta lagi hvernig hann sjái fyrir sér að haldið verði áfram að þróa félagsvísana hér á landi og hvað hann sé tilbúinn til að setja í það starf. Í öðru lagi hvernig megi bæta hina tölfræðilegu upplýsingar sem við þurfum að hafa fyrirliggjandi til að geta unnið félagsvísana betur en okkur hefur í fyrstu skrefum tekist að gera. Í þriðja lagi hvar eigi að vista þetta í stjórnkerfinu, hvar félagsvísarnir eigi að eiga heima í Stjórnarráðinu og á hvers ábyrgð þeir og þróun þeirra og upplýsingagjöf eigi að vera.