140. löggjafarþing — 83. fundur,  16. apr. 2012.

áframhaldandi þróun félagsvísa.

616. mál
[17:04]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Helgi Hjörvar hefur beint til mín fyrirspurn um áframhaldandi þróun félagsvísa og ég fagna því að vakin er athygli á þeirri vinnu. Þó að henni sé ekki lokið og mun sjálfsagt aldrei ljúka skiptir mjög miklu máli að við náum tökum á slíkri upplýsingasöfnun og upplýsingamiðlun eins og þarna hefur verið unnið að.

Fyrsta spurningin sem hv. þingmaður beindi til mín hljóðar svo: „Hvernig hyggst ráðherra tryggja áframhaldandi þróun og vinnu við gerð félagsvísa?“

Það mál sem hér er verið að ræða um — ég vil aðeins koma inn á það í svari mínu — hefur verið í undirbúningi síðustu þrjú ár eða allt frá því að ríkisstjórnin setti velferðarvaktina á laggirnar. Velferðarvaktin lagði fram sína fyrstu skýrslu í mars 2009 með margvíslegum ábendingum og tillögum. Ein tillagan var að fengnir yrðu sérfræðingar til að setja saman íslenska félagsvísa og tók ríkisstjórnin á þeim tíma undir þá tillögu. Velferðarvaktin skipaði sérstakan vinnuhóp til að halda utan um verkefnið og með honum hafa starfað sérfræðingar um 20 stofnana víða úr samfélaginu. Allir forstöðumenn þeirra stofnana sem leitað var til veittu góðfúslega leyfi sitt til að sérfræðingar þeirra leggðu sitt af mörkum og náðist afar gott samstarf um þetta flókna og brýna verkefni. Án þessa framlags hefðu félagsvísarnir ekki orðið að veruleika.

Í febrúar 2012 afhenti velferðarvaktin mér verkið í formi skýrslu sem er að finna á heimasíðu ráðuneytisins en að baki henni liggja margir gagnagrunnar sem nauðsynlegt er að setja saman í einn. Ég kynnti verkefnið í ríkisstjórn þann 17. febrúar sl. og var því vel tekið. Ég hef í framhaldi af því falið sérfræðingum í ráðuneytinu að taka upp viðræður við Hagstofu Íslands um að taka að sér að fylgja þessu verkefni eftir. Ég óskaði sérstaklega eftir því að í samningnum kæmi fram lýsing á verkefninu og að magn og umfang þess verði skilgreint ásamt kostnaðaráætlun. Þær viðræður eru hafnar og hefur Hagstofa Íslands tekið vel í að taka að sér verkefnið, a.m.k. þá þætti sem falla best að starfssviði Hagstofunnar. Ráðuneytið væntir þess að innan skamms berist formleg viðbrögð frá Hagstofunni um fyrirkomulag og áætlaðan kostnað, en auðvitað þarf að gera ráð fyrir að þetta kosti eitthvað og að það þurfi að fjármagna það. Þannig er svarið við því hvernig við ætlum að tryggja áframhaldandi þróun, þ.e. að áfram verður unnið í samráði við Hagstofuna og með þeim aðilum sem unnu að þessu.

Önnur spurningin er: „Hvernig hyggst ráðherra mæta skorti á nauðsynlegum tölulegum upplýsingum til þess að félagsvísarnir nýtist sem skyldi?“

Rétt er að benda á að þó mikil vinna sé að baki við að koma félagsvísunum á laggirnar og fyrir liggi skýrsla um verkefnið er því engan veginn lokið, eins og ég sagði í byrjun, og verður kannski seint eða aldrei lokið. Halda þarf áfram að þróa félagsvísana, safna nýjum upplýsingum og greina þær sem fyrir liggja enn betur. Sem dæmi má nefna að fyrir liggur að eftir er að greina allar upplýsingar eftir landshlutum og þar sem því hefur ekki enn verið við komið þarf að greina upplýsingarnar líka eftir kyni. Það er meðal annars nauðsynlegt ef við ætlum að taka upp og fylgja betur eftir kynjaðri hagstjórn. Því hefur verið ákveðið að stofna sérstakan sérfræðihóp sem starfa mun náið með Hagstofunni og að í hópnum verði fulltrúar ráðuneyta, stofnana, hagsmunasamtaka og háskólasamfélagsins sem haldi utan um stefnumörkunina og þróun félagsvísanna og undirbúi hvernig miðla skuli upplýsingunum þannig að félagsvísarnir nýtist sem best öllum, jafnt stjórnvöldum, einstaklingum og samfélaginu öllu. Hópurinn mun taka ákvarðanir um frekari greiningar um nýja vísa, hverjum megi sleppa eða fella út.

Þá er ekki síst verkefni hópsins að fjalla um hvaða félagsvísa stjórnvöld þurfi að hafa tiltæka og hversu oft þeir verði uppfærðir, en það getur verið mismunandi bæði hvað er mögulegt og hvað er brýnast að vita á hverjum tíma. Eitt af viðamiklum verkefnum stjórnvalda er að gefa skýr skilaboð um að stofnanir samfélagsins skrái og skili upplýsingum til Hagstofunnar svo unnt sé að hafa tiltæka félagsvísa sem gagnist sem best.

Þriðja spurningin er: „Hvaða stofnun eða ráðuneyti mun fara með umsjón og vistun félagsvísanna?“

Ég hef áður svarað því að við gerum ráð fyrir að vista félagsvísana hjá Hagstofu Íslands. Við gerðum ráð fyrir því í hugmyndunum að hún mundi taka að sér allt verkefnið. Það kom hins vegar fljótt í ljós í viðræðum við forsvarsmenn Hagstofunnar að skynsamlegast væri að skipta verkefninu í tvennt. Annars vegar tæki Hagstofan að sér að sjá um söfnun upplýsinga, gagnavinnslu og að halda utan um félagsvísana á hverjum tíma. Hins vegar yrði, eins og ég vék að áðan, stofnaður stýrihópur um stefnumörkun og þróun félagsvísanna ásamt því að sjá um miðlun þeirra. Þetta verkefni verður undir stjórn velferðarráðuneytisins en með aðkomu annarra ráðuneyta og stofnana eins áður sagði. Taka má fram að allar þær stofnanir sem hafa lagt vinnu af mörkun við þetta hafa að sjálfsögðu gert það sem hluta af vinnuskyldu sinni og án sérstaks kostnaðar, en það er óhjákvæmilegt að einhver kostnaður hljótist af því að koma þessu verkefni fyrir í daglegum verkum Hagstofunnar.