140. löggjafarþing — 83. fundur,  16. apr. 2012.

áframhaldandi þróun félagsvísa.

616. mál
[17:10]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir athugasemdina. Því er fljótsvarað út af fyrir sig, það liggja fyrir tiltölulega ítarlegar upplýsingar um fjárhagsstöðu heimilanna í skattframtölum fyrir hvert ár og þarf ekki að fara fimm ár aftur í tímann til að afla þeirra.

Ég fagna því að hæstv. ráðherra hefur greinilega sett af stað skipulega vinnu við að fylgja eftir því góða starfi sem unnið var, brautryðjendastarfi við að koma á félagsvísum hér og þróun þeirra og þeirri skýrslu sem kynnt var hér fyrr á þessu ári. Við höfum í hagfræðinni og á fjármálamörkuðum og öðrum slíkum þróuðum geirum samfélagsins komið okkur upp tækjum til að fylgjast með þróun og gera okkur aðvart um ef illa gengur á einhverju tilteknu sviði eða ef hætta er á ferðum og eins ef sérlega vel gengur. Þó að talsvert mikið skrifræði sé í kringum það að koma á sambærilegum mælikvörðum í félagsmálunum, í heilbrigðismálunum, í velferðarþjónustunni, er það gríðarlega mikilvægt við að nýta sem best þau stjórntæki sem við höfum til að átta okkur sem allra fyrst á því hvenær þurfi að grípa til ráðstafana eða aðgerða á einstökum sviðum eða í einstökum landshlutum eða gagnvart einstökum hópum í samfélaginu. Ég held að það sé vel til fundið að Hagstofan sinni hinum tölfræðilega þætti málsins því að hún hefur mikla sérþekkingu á því sviði og mikið af gögnum að byggja á, en ég fagna því að velferðarráðuneytið mun eftir sem áður fara faglega fyrir málinu og hafa sérfræðihóp og gott samráð við þær fjölmörgu stofnanir í íslensku samfélagi sem geta lagt mikilvægar upplýsingar af mörkum inn í félagsvísana til að við áttum okkur glögglega á því ef taka þarf á á tilteknum sviðum í samfélaginu.