140. löggjafarþing — 83. fundur,  16. apr. 2012.

hækkun kostnaðarhlutdeildar lífeyrisþega, öryrkja og barna vegna sjúkraþjálfunar.

628. mál
[17:24]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Hinn almenni borgari, bótaþegar, börn og fleiri nota sama heilbrigðiskerfið og borga fyrir rannsóknir, myndatökur, tannlækningakostnað, lyf, læknisheimsóknir, flutninga, aðgerðir og svo sjúkraþjálfun. Það er að mínu mati mjög rangt að líta ekki heildstætt á allt kerfið frá sjónarhorni sjúklingsins og vernda hann fyrir útgjöldum á hinum ýmsu stigum. Sú tilraun sem nú er verið að gera í hv. velferðarnefnd að frumkvæði hæstv. ráðherra, að taka bara þátt í útgjöldum vegna lyfja, mun ekki leysa þennan vanda því að eftir stendur nánast allt heilbrigðiskerfið fyrir utan lyfin þar sem menn þurfa að borga hitt og þetta. Menn verða að fara að horfa heildstætt á málið. Það er miklu skynsamlegra að mínu mati að taka þetta allt í einum rykk og líta á málið frá sjónarhorni borgarans og tryggja hann almennilega fyrir þessum útgjöldum.