140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

störf þingsins.

[13:38]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það er mjög athyglisvert að sjá áherslur stjórnarþingmanna í þessari umræðu. Nýlega var reynt að draga úr þeirri staðreynd að Evrópusambandið styðji málssókn gegn Íslendingum og þá eru dregin upp þessi ummæli sem féllu vissulega í gær. Það er ekkert skrýtið við það að formaður Framsóknarflokksins skuli gagnrýna EFTA-dómstólinn og ESA og þær stofnanir sem við erum aðilar að þegar við sjáum að fyrrverandi forseta ESA, að ég held, tók eindregna afstöðu gegn Íslendingum rétt áður en maðurinn hætti í því embætti. Er eitthvað að því að við gagnrýnum þær stofnanir sem við erum aðilar að?

Það hefur enginn talað um að hætta í EFTA. Það væri í rauninni freistandi fyrir Íslendinga að reyna að styrkja EES-samninginn, þ.e. að fá fleiri ríki inn í þann samning í staðinn fyrir að halda áfram á þeirri vegferð sem við erum á. Ég get huggað hv. þingmann með því að ekki stendur til að leggja til að Íslendingar gangi úr EFTA. En við hljótum að geta leyft okkur að gagnrýna þennan dómstól og þær alþjóðastofnanir sem við erum aðilar að. Við eigum ekki bara að sitja og horfa á ef við erum ósátt. Það er engin stórmennska í því.

Að sama skapi hlýt ég að velta því fyrir mér hvort þetta sé stærra mál í augum þingmannsins en það sem tröllriðið hefur umræðum í þinginu og fjölmiðlum undanfarið. Við hljótum að spyrja okkur að því þegar menn setja hlutina í þetta samhengi. Auðvitað er þetta smámál á miðað við það þegar framkvæmdastjórn ESB ákvað að styðja málsókn gegn Íslendingum. Þetta er bara smámál og með þessari umfjöllun er reynt að draga athyglina frá því stóra máli sem við gagnrýnum mörg. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að það er enginn áhugi fyrir því hjá Framsóknarflokknum að beita sér fyrir því að Ísland segi sig úr EFTA. Það hefur enginn rætt það. Engum dettur það í hug, held ég, en það er sjálfsagt að gagnrýna og kalla hugsanlega eftir endurskoðun á starfsemi þeirra stofnana sem við erum aðilar að. Ef við erum ósátt eða teljum að á okkar hlut sé gengið með einhverjum hætti eigum við að sjálfsögðu að gagnrýna það en við eigum þá líka að rökstyðja það. Það held ég að hafi verið gert með því að benda á að þessi dómstóll virtist í gegnum tíðina oftar en ekki hafa komið með frekar pólitískar niðurstöður.